Ekki hægt án ensku liðanna

Andrea Agnelli varð að játa sig sigraðan.
Andrea Agnelli varð að játa sig sigraðan. AFP

Andrea Agnelli, stjórnarformaður ítalska knattspyrnufélagsins Juventus og einn forsprakka evrópsku ofurdeildarinnar, segir að hún sé búin að vera og ekki verði hægt að stofna til hennar án þátttöku ensku félaganna.

„Ef ég á að segja það í fullri hreinskilni, þá er svarið nei. Það verður greinilega ekki hægt,“ svaraði Agnelli spurningu fréttastofu Reuters um möguleikann á framhaldi. Félögin sex sem eftir eru lýstu því yfir seint í gærkvöld að stefnt væri að því að halda áfram með deildina.

„Ég er áfram sannfærður um gildi deildarinnar og hversu mikils virði hún hefði verið fyrir þróun knattspyrnuheimsins sem besta knattspyrnukeppni heims. En nei, ég tel að þetta verkefni sé ekki lengur í gangi,“ sagði Agnelli.

Agnelli sagði af sér sem formaður Samtaka evrópskra knattspyrnufélaga, ECA, um helgina í aðdragandanum að tilkynningunni um stofnun ofurdeildarinnar.

Forseti UEFA, Aleksander Ceferin, vandaði Agnelli ekki kveðjurnar og kvaðst aldrei hafa kynnst öðrum eins lygum og svikum eftir að stofnun deildarinnar var gerð opinber á sunnudaginn en þeir höfðu unnið náið saman, m.a. að undirbúningi breytinga á Meistaradeild Evrópu.

Fréttir hafa verið uppi á Ítalíu um að Agnelli hafi sagt af sér hjá Juventus en þær hafa ekki fengist staðfestar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert