Vonast eftir sterkasta liðinu gegn Íslandi

Kosovare Asllani og Ingibjörg Sigurðardóttir í leiknum á Laugardalsvellinum.
Kosovare Asllani og Ingibjörg Sigurðardóttir í leiknum á Laugardalsvellinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Peter Gerhardsson, þjálfari sænska kvennalandsliðsins, vonast til þess að geta stillt upp sínu sterkasta liði gegn Íslandi í undankeppni EM í Gautaborg á þriðjudagskvöldið kemur en óvissa hefur verið um tvo af öflugustu leikmönnum liðsins.

Kosovare Asllani, miðjumaður Real Madrid og ein sú reyndasta í sænska liðinu, meiddist á æfingu í síðustu viku og gat ekki spilað gegn Lettum í gær en þar unnu Svíar auðveldan 7:0 sigur.

Lina Hurtig fór meidd af velli í leiknum í gær og útlitið virtist ekki gott hjá henni þegar hún fór hálfgrátandi af velli.

Asllani var með á æfingu landsliðsins í dag en tók ekki þátt í spili. Gerhardsson sagði að það kæmi betur í ljós á sunnudaginn hver staðan á henni væri en hann væri bjartsýnn fyrir hennar hönd. Þjálfarinn sagði ennfremur að útlitið með Hurtig væri mun betra í dag en það var eftir leikinn í gær og sjálfur væri hann nokkuð sannfærður um að geta teflt þeim báðum fram.

Svíþjóð og Ísland heyja einvígi um sigurinn í F-riðli og sæti í lokakeppni EM á Englandi 2022. Bæði hafa unnið alla sína leiki að undanskildu jafnteflinu þeirra á milli, 1:1, á Laugardalsvellinum í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert