Juventus og Tottenham að skipta á leikmönnum?

Adrien Rabiot hefur aðeins byrjað tvo leiki í ítölsku A-deildinni …
Adrien Rabiot hefur aðeins byrjað tvo leiki í ítölsku A-deildinni á þessari leiktíð. AFP

Ítalska knattspyrnufélagið Juventus vill fá Christian Eriksen, sóknarmann Tottenham, til Ítalíu en það eru ítalskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Fjölmiðlar á Ítalíu segja að Juventus er tilbúið að láta Adrien Rabiot í skiptum fyrir Eriksen en franski miðjumaðurinn gekk til liðs við Juventus á frjálsri sölu síðasta sumar.

Rabiot, sem er 24 ára gamall, kom til Juventus frá franska stórliðinu PSG þar sem hann er uppalinn en hann hefur ekki átt fast sæti í ítalska liðinu á þessari leiktíð. Hann hefur aðeins byrjað tvo af fyrstu sjö leikjum liðsins í ítölsku A-deildinni og þá hefur hann einu sinni komið inn á sem varamaður.  

Eriksen verður samningslaus hjá Tottenham næsta sumar en Daninn hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við enska félagið. Hann hefur verið sterklega orðaður við Real Madrid en Florentino Pérez, forseti Real Madrid, er mikill aðdáandi leikmannsins. Tottenham gæti hins vegar látið Eriksen fara í janúar á meðan félagið fær ennþá eitthvað fyrir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert