„Þetta er döpur stund“

Það féllu tár hjá Neymar þegar hann gekk af velli.
Það féllu tár hjá Neymar þegar hann gekk af velli. AFP

Luis Enrique þjálfari Barcelona segir að síðasta tímabil sitt með liðið geti enn endað á góðu nótunum þrátt fyrir fall liðsins út úr Meistaradeildinni í gærkvöld.

Spánarmeistararnir gerðu markalaust jafntefli við Ítalíumeistara Juventus á Camp Nou í seinni leik liðann í átta liða úrslitunum og Juventus vann einvígi, 3:0.

„Þetta er döpur stund en við reyndum allt fram til síðustu mínútu. Þetta er lið sem aldrei gefst upp, sem berst um alla titla, slakar ekki á og tekur áskorunum,“ sagði Enrique eftir leikinn en hann lætur af störfum hjá Katalóníuliðinu eftir tímabilið.

Börsungar hafa lítinn tíma til að sleikja sárin því þeir sækja erkifjendur sína í Real Madrid heim á sunnudag í El Clásico-slag.

„Það er á hreinu að tekur mig sárt að hafa fallið úr leik í Meistaradeildinni en núna er lykilleikur fram undan á móti toppliðinu og okkar erkióvinum. Ég er sannfærður um að við verðum klárir í þann slag,“ sagði Enrique en Real Madrid hefur þriggja stiga forskot á Barcelona og á að auki leik til góða.

Barcelona verður án Brasilíumannsins Neymars í leiknum gegn Real Madrid þar sem hann tekur út leikbann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert