FIFA samþykkti róttækar tillögur

Frá aukaþingi FIFA sem nú stendur yfir í Zürich.
Frá aukaþingi FIFA sem nú stendur yfir í Zürich. AFP

Tillaga um róttækar breytingar á starfsemi FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, voru samþykktar á aukaþingi sambandsins sem hófst í Zürich í Sviss í morgun. Tillagan var samþykkt af 179 aðildarþjóðum FIFA, af þeim 207 sem hafa atkvæðisrétt á þinginu.

Síðar í dag verður nýr forseti FIFA kjörinn og hann mun starfa samkvæmt þessum nýsamþykktu breytingum.

Þær eiga að koma í veg fyrir spillingu og auka gagnsæi knattspyrnuhreyfingarinnar stórlega. Þar eru pólitík og fjármál sambandsins algjörlega aðskilin, settar takmarkanir á hve lengi fulltrúar geta setið í stjórn FIFA, greiðslur til einstaklinga verða opinberar, staða kvenna innan hreyfingarinnar verður styrkt til muna, og gætt betur að almennum mannréttindum.

Þá eru í nýju reglunum leiðbeiningar til aðildarþjóða og álfusambanda um rekstur og utanumhald íþróttarinnar, ákvæði um sjálfstæða dómstóla, ásamt fleiru.

„Við erum staðráðin í að koma öllu í rétt horf þannig að knattspyrnan sjálf verði á ný aðalmálið. Nú hefst mikil vinna til þess að endurheimta traust almennings og bæta okkar vinnubrögð," sagði Issa Hayatou, starfandi forseti FIFA, þegar breytingarnar voru kynntar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert