Forsetakosningum ekki frestað

Jórdanski prinsinn Ali bin al Hussein býður sig fram í …
Jórdanski prinsinn Ali bin al Hussein býður sig fram í kjörinu á forseta FIFA. AFP

Alþjóða íþróttadómstóllinn, CAS, tilkynnti nú síðdegis að hann hefði hafnað beiðni Ali Bin Al Hussein frá Jórdaníu um að forsetakjöri Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, sem fram á að fara á föstudaginn, yrði frestað.

Lögmenn Ali höfðu sent dómstólnum þessa beiðni í kjölfarið á því að kröfu hans um að kjörklefarnir yrðu gegnsæir var hafnað. 

Ali er einn þeirra fimm sem sækjast eftir embætti forseta FIFA en Sepp Blatter lætur af störfum eftir að hafa stýrt sambandinu frá 1998. Blatter var fyrr í vetur úrskurðaður í átta ára bann frá afskiptum af knattspyrnu og má hvergi nærri kjörinu koma.

Auk Ali eru það Salman Bin Ebrahim Al Khalifa frá Barerin, Gianni Infantino frá Sviss, Tokyo Sexwale frá Suður-Afríku og Jeróme Champagne frá Frakklandi sem eru í framboði.

Almennt er talið að Salman og Infantino muni berjast um sigur í kjörinu og að Salman, sem er forseti asíska knattspyrnusambandsins, standi þar aðeins betur að vígi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert