Átta ára bann - fyrir hvað?

Sepp Blatter, forseti FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, kveðst vera steini lostinn yfir þeim úrskurði siðanefndar FIFA að hann og Michel Platini, forseti UEFA, skuli sæta átta ára banni frá afskiptum af knattspyrnu, vegna greiðslu sem Platini fékk frá Blatter fyrir nokkrum árum. Hann kveðst ætla að áfrýja úrskurðinum.

Blaðamannafundur Blatters hófst í Zürich í Sviss núna um tíuleytið og þar sagði hann að hinn umtalaði munnlegi samningur milli hans og Platinis hefði verið samþykktur tvívegis á fundum framkvæmdastjórnar UEFA.

„Við gerðum svokallaðan munnlegan samning, eða heiðursmannasamkomulag, árið 1998 í Frakklandi, rétt eftir að heimsmeistarakeppninni lauk. Platini sagði að hann væri tilbúinn til að starfa fyrir FIFA. Ég sagði að það væri frábært. Hann kvaðst vilja eina milljón svissneskra franka í laun, og ég sagði að það væri í lagi. Við gætum greitt honum hluta af því strax, hitt síðar," sagði Blatter á fundinum.

„Það sem slær mig núna, hvað ákvörðun siðanefndar FIFA varðar, er að þeir neita því að þetta samkomulag hafi verið til staðar. Samt var þetta tvívegis staðfest óformlega  á fundum framkvæmdastjórnar UEFA, í Svíþjóð og aftur í Zürich í desember 1998. Þar kom þetta samkomulag til umræðu og var fært tilbókað. Þar var staðfest að þessar viðræður hefðu átt sér stað og menn muna eftir þessu. Við höfum því sannanir fyrir því að fleiri en ég og Platini vissum af þessu samkomulagi.

Það fór fyrir fjármálanefndina, framkvæmdastjórnina, fyrir nefnd hjá FIFA og fyrir þingið. Þetta var skráð og var gert á réttum nótum.

Þið sem eruð í þessum sal, þið fréttamennirnir, hafið fylgst með sögu FIFA og þið getið ekki breytt henni. Ég er sakaður um að hafa fært Platini gjöf, vegna samkomulagsins og samningsins. Ég er settur í átta ára bann en ég mun berjast fyrir sjálfan mig og fyrir FIFA. Ég er í átta ára banni - en fyrir hvað?" sagði Blatter.

Hann bætti síðan við: „Ég skammast mín ekki. Ég sé eftir ýmsu en skammast mín ekki. Ég skammast mín hinsvegar fyrir þessa ákvörðun nefndarinnar og að þeir skuli ekki fara eftir þeim sönnunargögnum sem liggja fyrir. Þeir hafa engan rétt til að ráðast gegn forsetanum. Það er bara þing FIFA sem  getur sett forsetann af. Ég er forseti FIFA til 27. febrúar, þar til nýr verður kjörinn."

„Siðanefnd FIFA hafði áður lýst því yfir að við Platini fengjum lífstíðarbann. Nú hafa þeir dregið aðeins úr því og það sýnir að eitthvað er ekki í lagi. Þessvegna mun ég berjast áfram. Mér þykir leitt að ég sé stuðpúði í þessu, og þykir þetta leitt fyrir hönd stofnunarinnar sem ég hef unnið fyrir af öllu mínu hjarta í 41 ár. En FIFA starfar samt vel áfram," sagði Blatter og lauk máli sínu með því að óska Barcelona til hamingju með að verða heimsmeistari félagsliða í þriðja sinn.

Sepp Blatter kemur til fundarins í Zürich í dag.
Sepp Blatter kemur til fundarins í Zürich í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert