Silva skaut City í úrslitaleikinn

Liðsmenn Manchester City fagna sigurmarki Bernardo Silva.
Liðsmenn Manchester City fagna sigurmarki Bernardo Silva. AFP/Ben Stansall

Manchester City tók á móti Chelsea í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar í fótbolta í dag. Leikið var á Wembley leikvanginum í Lundúnum og endaði leikurinn með sigri Manchester City, 1:0.

Manchester City mætir því annaðhvort Manchester United eða Coventry í úrslitaleiknum en þau mætast á morgun og kemur þá í ljós hvort liðið komist í úrslitaleikinn.

Óhætt er að segja að leikurinn hafi einkennst af mikilli baráttu beggja liða en mörkin létu bíða eftir sér.

Cole Palmer og Julian Alvarez í baráttunni á Wembley í …
Cole Palmer og Julian Alvarez í baráttunni á Wembley í dag. AFP/Ben Stansall

Phil Foden komst í góða stöðu á 14. mínútu leiksins eftir frábæra stungusendingu frá Kevin De Bruyne. Foden fór framhjá Djordje Petrovic, markverði Chelsea, en náði ekki að koma boltanum á markið og sóknin rann út í sandinn.

Besta furie Chelsea í fyrri hálfleiknum fékk Nicolas Jackson þegar hann fékk stungusendingu innfyrir vörn City frá Conor Gallagher. Jackson labbaði framhjá Stefan Ortega, markverði City, en í staðin fyrir að skjóta á markið þá ákvað Jackson að senda boltann út í teiginn þar sem varnarmenn City komu boltanum í burtu.

Fátt meira markvert gerðist í fyrri hálfleik og flautaði góður dómari leiksins, Michael Oliver, til hálfleiks.

Á 49. mínútu fékk Nicolas Jackson tvö góð færi til að koma Chelsea yfir. Það fyrra fékk hann eftir sendingu innfyrir frá Gallagher, Jackson náði skoti að marki en Ortega varði það vel. Seinna færið var algjört dauðafæri en þá fékk Jackson frían skalla inni á markteig eftir fyrirgjöf frá Cole Palmer en skallinn var slakur og fór beint á Ortega sem varði aftur frá Senegalanum.

Cole Palmer, Moises Caicedo og Nicolas Jackson niðurlútir eftir lokaflautið …
Cole Palmer, Moises Caicedo og Nicolas Jackson niðurlútir eftir lokaflautið á Wembley í dag. AFP/Glyn Kirk

Sigurmark leiksins kom á 84. mínútu en þar var að verki Bernardo Silva sem skoraði fyrir Manchester City. Jeremy Doku átti þá sendingu í hlaupið hjá Kevin De Bruyne. Belginn gerði vel og setti boltann fyrir markið með viðkomu í Djordje Petrovic, markverði Chelsea. Af honum hrökk boltinn fyrir fæturnar á Bernardo Silva sem setti boltann auðveldlega í markið og þeir ljósbláu ærðust af fögnuði.

Chelsea reyndi hvað þeir gátu að jafna en komust lítt áleiðis gegn sterkri vörn Manchester City og eru það því ríkjandi bikarmeistarar sem eru komnir í úrslitaleikinn.

Man. City 1:0 Chelsea opna loka
90. mín. Chelsea fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka