Vandræði Leicester halda áfram

Vandræði Leicester City halda áfram.
Vandræði Leicester City halda áfram. AFP/Glyn Kirk

Leicester City, sem féll úr ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á síðustu leiktíð, mátti þola tap gegn Bristol City á útivelli í B-deildinni í dag, 1:0. Anis Mehmeti gerði sigurmarkið á 73. mínútu með glæsilegu skoti utan teigs.

Leicester hefur verið á toppi deildarinnar stærstan hluta tímabils, en hefur nú aðeins unnið einn leik af síðustu sex. Fyrir vikið er liðið fallið niður í annað sæti, en Leeds vermir toppsætið um þessar mundir.

Leicester er með 82 stig, eins og topplið Leeds. Leeds, sem mætir Watford klukkan 20 í kvöld, er með betri markatölu og því fyrir ofan. Féllu liðin saman úr úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Til að bæta gráu ofan á svart fyrir Leicester var liðið kært af ensku úrvalsdeildinni á dögunum fyrir meint brot á fjárhagsreglum deildarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert