„Satt að segja algjört kjaftæði“

Andros Townsend og James Garner eigast við í leik Luton …
Andros Townsend og James Garner eigast við í leik Luton og Everton í janúar. AFP/Paul Ellis

Andros Townsend, leikmaður Luton Town, segir það óþægilegt að vita ekki hvað önnur lið í fallbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kunni að vera með mörg stig þegar tímabilinu lýkur.

Luton er í harðri baráttu við Everton og Nottingham Forest um að halda sæti sínu í deildinni, en þau hafa bæði sætt stigafrádrætti af hálfu ensku úrvalsdeildarinnar vegna brota á reglum um hagnað og sjálfbærni í rekstri.

Vitum ekki hvað gerist

„Við vitum ekki hvað mun gerast. Everton er búið að fá stig til baka, Forest er að áfrýja og gæti fengið stig til baka og Everton gæti misst frekari stig. Hver veit?“ sagði Townsend í útvarpsþættinum Monday Night Club á BBC Radio 5 Live.

Upphaflega voru tíu stig dregin af Everton en þeim var fækkað í sex eftir áfrýjun. Félagið gæti svo sætt frekari stigafrádrætti vegna aðskilins máls sem er til meðferðar hjá úrvalsdeildinni.

Á dögunum voru svo fjögur stig dregin af Forest, sem þýðir að liðið fór niður í 18. sæti og Luton upp í 17. sæti. Úrvalsdeildin hefur frest til þess að ljúka öllum málum af þessu tagi til 24. maí, fimm dögum eftir að keppni í deildinni lýkur.

Gerir lítið úr úrvalsdeildinni

„Þetta gæti allt saman klárast einni viku áður en tímabilinu lýkur. Þetta er satt að segja algjört kjaftæði.

Ef þú ert rétt fyrir ofan fallsætin koma sálfræðilegir þættir til þar sem þú hugsar með þér að eitt stig gæti nægt til að halda sæti þínu.

Viku seinna gætirðu svo verið kominn aftur í fallsæti því lið fengu stigin sín aftur. Að mínu mati gerir þetta lítið úr úrvalsdeildinni, bestu deild heims,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert