Fyrsta æfingin í dag eftir erfið veikindi

Hallgrímur Mar Steingrímsson.
Hallgrímur Mar Steingrímsson. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Knattspyrnumaðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson gæti snúið aftur á knattspyrnuvöllinn um miðjan næsta mánuð en hann er samningsbundinn KA í Bestu deildinni.

Þetta tilkynnti hann í samtali við mbl.is en Hallgrímur, sem er 33 ára gamall, er algjör lykilmaður í liði Akureyringa og hefur verið það undanfarin ár. Hann hefur ekkert leikið með KA í fyrstu þremur umferðum Íslandsmótsins en hafði fram að því ekki misst úr leik með liðinu í efstu deild frá byrjun tímabilsins 2017.

Sóknarmaðurinn veiktist rétt fyrir mót og hafa Akureyringar saknað hans mikið en liðið er með eitt stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar og hefur aðeins skorað þrjú mörk í fyrstu þremur leikjum sínum.

Fyrsta æfingin í dag

„Ég er að fara á fyrstu fótboltaæfinguna mína í dag eftir veikindi og þetta mun byrja rólega hjá mér,“ sagði Hallgrímur Mar í samtali við mbl.is.

„Það er erfitt að ætla að setja einhvern sérstakan dag á það hvenær ég sný aftur á völlinn en ég vonast til þess að vera kominn almennilega af stað, æfingalega séð, í byrjun mai.

Ef það kemur ekkert bakslag þá reikna ég með því að spila fljótlega eftir að ég verð kominn á fullt á æfingum,“ sagði Hallgrímur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka