Verður krefjandi og gott verkefni fyrir bæði lið

Pálmi Rafn Pálmason í leik með KR gegn Víkingi.
Pálmi Rafn Pálmason í leik með KR gegn Víkingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessi lið eru áþekkt á styrkleika,“ sagði Pálmi Rafn Pálmason, fyrirliði KR, í samtali við mbl.is er KR dróst á móti Víking úr Reykjavík í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu. Leikið verður í Víkinni 31. júlí. 

„Þetta verður krefjandi og gott einvígi fyrir bæði lið. Þegar það er komið í átta liða úrslit þá eru miklar líkur á því að þú lendir á móti sterkum andstæðingum sem að bæði lið fengu í þetta skipti. Þannig þetta verður bara hörkuleikur.“

KR sló út Njarðvík í 16-liða úrslitunum á mánudaginn síðastliðinn. Víkingur og KR mætast einnig í Bestu deildinni annað kvöld á Meistaravöllum.

„Við reynum alltaf að byggja á góðum leikjum hjá okkur. Það verður bara spurning hvernig formi við og þeir erum í fyrir þennan leik. En svo er þetta bara stakur leikur og dagurinn sem ræður og liðið sem á betri dag fer, ef allt er eðlilegt, áfram. En auðvitað er alltaf gott að koma inn í leikinn með sjálfstraust. 

Þú færð bara einn möguleika í bikarnum og þessi lið eru áþekk að styrkleika þannig það er ómögulegt að ráða í það fyrirfram sama hvort við tölum um leikinn í bikarnum eða leikinn á morgun,“ sagði Pálmi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert