Fjölmiðlar voru að blása þetta upp

Dagný Brynjarsdóttir í leik gegn Fylki í sumar.
Dagný Brynjarsdóttir í leik gegn Fylki í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir átti mjög góðan leik í 4:1-sigri Selfoss á Stjörnunni í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Dagný skoraði tvö mörk og var óheppin að fullkomna ekki þrennuna í seinni hálfleik. 

„Þetta var heit yfir flottur leikur hjá okkur. Þetta var svolítið það sem hefur vantað í hina leikina; að sækja fram og til baka, stanslaus hlaup og sprettir fram og til baka. Við héldum boltanum vel og teymdum liðið framar og skiptum honum vel á milli kanta og spiluðum á manninn sem var opinn. Við sóttum þegar glufur opnuðust og spiluðum vel saman,“ sagði Dagný við mbl.is. 

Fyrsta markið kom úr víti sem Dagný náði í sjálf, en hún skaut boltanum höndina á Ingibjörgu Lúcíu Ragnarsdóttir og Þórður Már Gylfason dæmdi vítaspyrnu. „Ég ætlaði að skjóta á markið og hún var með höndina úti og þetta var pjúra hendi. Við vorum búin að ræða að ég fengi að taka vítin í dag og ég vissi að ég færi á punktinn þegar vítið var dæmt.“

Mörkin voru þau fyrstu hjá Dagnýju í deildinni síðan 2015, en hún hefur leikið í Bandaríkjunum síðustu ár. „Það er gaman að skora, en mér er nett sama ef við vinnum og fáum þrjú stig, en auðvitað er alltaf gaman að skora,“ sagði Dagný sem skoraði eitt mark til viðbótar sem var dæmt af. „Mig langaði í þriðja markið en það var dæmd rangstaða á Tiffany þegar ég skora þriðja markið. Ég er ekki viss um að hún hafi verið rangstæð en ég vona að hún hafi verið rangstæð, annars er þetta svekkjandi.“

Frá leiknum í kvöld. Dagný hrósaði Tiffany MC Carty í …
Frá leiknum í kvöld. Dagný hrósaði Tiffany MC Carty í leikslok. mbl.is/Arnþór Birkisson

Umtöluð Tiffany MC Carty átti virkilega góðan leik og lagði upp tvö mörk. Dagný þekkti þá bandarísku fyrir, en þær spiluðu saman með Florida State-háskólanum. Ég er kannski sú eina sem þekki hana vel þar sem ég spilaði með henni í tvö ár hjá Florida State þar sem hún var frammi og ég fremst á miðjunni og við náðum að tengja ágætlega. Það eru næstum því tíu ár síðan, svo við erum að finna okkur aftur. Við erum allar að læra betur inn á hvora aðra enda sex nýjar í byrjunarliðinu frá því í fyrra og við höfum þurft tíma til að spila okkur saman.“

Selfoss var í umræðunni í síðustu viku vegna kórónuveirusmits sem greindist hjá leikmanni Breiðabliks. Hafði umræddur leikmaður stuttu áður komið inn á sem varamaður í leik gegn Selfossi og héldu því einhverjir að lið Selfoss þyrfti að fara í sóttkví, en svo var ekki. 

„Ég var eiginlega mest ósátt við fjölmiðla því þeir voru að blása þetta upp og eiginlega ýkja hlutina. Maður getur ekki farið út heima hjá sér og þá er maður spurður af hverju maður sé ekki í sóttkví á meðan við áttum aldrei að fara í sóttkví. Við vorum með tvo leikmenn í kvöld í sóttkví því þeir voru í þessari umtöluðu útskriftarveislu. Það kom neikvætt próf hjá þeim en þær verða í sóttkví fram á laugardag. Við hinar eru góðar,“ sagði Dagný. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert