Er „íslenska sumarkonan“ skyggn?

Tískusérfræðingar spá því að kúrekahattar verði það allra heitasta í …
Tískusérfræðingar spá því að kúrekahattar verði það allra heitasta í sumar. Samsett mynd

Tískustraumar úr villta vestrinu hafa tekið yfir tísku- og hönnunarheiminn á undanförnum mánuðum. Síðasta sumar ruku vinsældir kúrekastígvéla upp úr öllu valdi, en tískusérfræðingar spá því að í sumar verði kúrekahattar það allra heitasta.

Þegar litið er á tískupalla margra fremstu tískuhúsa heims eru vestrænir tískustraumar áberandi, en einnig ef horft er til skærustu stjarna heims á borð við Beyoncé, Bellu Hadid og Kim Kardashian. 

Þótt stjörnurnar í Hollywood séu að uppgötva töfra kúrekahattarins núna þá fóru íslenskar skvísur að nota kúrekahatta fyrir ári síðan. Það bendir því allt til þess að íslenska sumarkonan svokallaða, sem Berglind Festival vakti athygli á í Vikunni með Gísla Marteini síðasta haust, hafi í einni af veiðiferðum sínum fengið hugljómun og séð að mikið kántrí- og kúrekaæði væri í uppsiglingu og ákveðið að ríða á vaðið og skella kúrekahattinum upp á undan öllum öðrum. 

Vinsældir hafa aukist um 400%

Samkvæmt heimildum Fashionista hefur áhugi á kúrekahöttum aukist um heil 400% samanborið við sama tíma á síðasta ári. Það er þó líklegt að tónlistardívan Beyoncé hafi eitthvað með þessar tölur að gera, en þann 29. mars síðastliðinn steig hún inn í tískuheim íslensku sumarkonunnar og hóf kúrekatímabil sitt með útgáfu plötunnar Cowboy Carter.

Þegar Beyoncé tilkynnti plötu sína á Ofurskálinni í febrúar síðastliðnum jókst leit á Google að kúrekahöttum um meira en 212% um allan heim, en að svo stöddu liggja engar tölur fyrir um aukningu á vinsældum kúrekahatta eftir umfjöllun Berglindar í Vikunni. 

Heimsótti heitasta hönnuðinn í dag

Á dögunum fór Mosha Lundström, blaðamaður hjá tískutímaritinu Vogue, og hitti hönnuðinn Gladys Tamez sem á heiðurinn að kúrekahöttum Beyoncé og fleiri stórstjarna. Lundström fékk að máta fjölbreytta hatta á meðan Tamez fræddi hana um hatta af hinum ýmsu gerðum. 

Hönnun Tamez ætti að falla vel í kramið hjá íslenskum sumarkonum, en hún gerir bæði stílhreina og óhefðbundna hatta sem eru til sölu í verslun hennar í Los Angeles og á heimasíðu hennar. 

Framan á plötu Beyoncé er tónlistarkonan með hattinn „Houston“ en samkvæmt heimasíðu Tamez kostar hann 82.700 krónur. Þá hefur Beyoncé einnig verið með kúrekahatt úr gallaefni sem Tamez hannaði, sem kostar 107.800 krónur, auk annarra hatta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál