Íslendingar vinna með auglýsingahönnuði Nike

Fatahönnuðurinn Ýr Þrastadóttir hefur áhuga á að fylgja nýja vörumerki …
Fatahönnuðurinn Ýr Þrastadóttir hefur áhuga á að fylgja nýja vörumerki sínu eftir úti í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Snoori­Bros

Fatahönnuðirnir Ýr Þrastardóttir og Alexander Kirchner ætla að leggja land undir fót að kynna nýtt vörumerki sitt sem bar nafnið Warriör. Með vörumerkinu vilja þau búa til skjöld fyrir fólk sem er í stríði við fábreytileikann. Þau eru að frumsýna nýtt kvikmyndaverk sem sjá má hér neðar í viðtalinu og verða með Pop-up verslun um helgina þar sem fólk getur nálgast vörurnar þeirra. 

Auglýsingahönnuðurinn Hunter Simms er hluti af teyminu. Simms hefur unnið fyrir vörumerki á borð við Nike, Spotify, Apple, Reebok og Mercedes svo eitthvað sé nefnt. 

Ýr segir að Simms hafi lengi heillast að íslenskri fatahönnun og hafi langað að flytja íslenskan tískufatnað út til Bandaríkjanna. „Það var svo í vor að hann hafði samband við mig og Alexander varðandi mögulegt samstarf.“

Hvernig byrjaði samstarfið ykkar Alexanders?

„Ég og Alexander erum búin að þekkjast síðan í grunnskóla. Við vorum saman í unglingadeildinni í Hlíðaskóla og kynntust svo aftur á síðari árum í gegnum tískubransann á Íslandi. Alexander var lærlingur hjá mér þegar ég hélt mína fyrstu einkasýningu og í framhaldi deildum við vinnurými um tíma þegar hann var að byrja sinn eigin hönnunarferil.“

Fatahönnuðurinn Alexander Kirchner hefur starfað innan tískuiðnaðarins í fjölmörg ár.
Fatahönnuðurinn Alexander Kirchner hefur starfað innan tískuiðnaðarins í fjölmörg ár. Ljósmynd/Snoori­Bros

Ýr og Alexander hafa lengi verið undir áhrifum hönnun hvors annars.

„Það var því kjörið tækifæri þegar Simms kom með þá hugmynd að sameina okkur undir einum hatti, til að nýta sem best hæfileika okkar.“ 

Hvað getur þú sagt mér um nafn vörumerkisins?

„Simms kom nokkrum sinnum til Íslands í vor til að funda með okkur um verðandi samstarf. Við tókum nokkra hugmyndafundi og eftir að hafa farið í gegnum hvað okkar hönnun stendur fyrir þá stóðu nokkrar hugmyndir upp úr. Við teljum okkur vera að hanna ákveðna brynju á fólk. Þar að segja, að þegar fólk klæðist hönnun okkar þá líður þeim eins og þau séu komin í ákveðinn ham sem veitir öryggi og aðlagast persónunni. Við höfum bæði verið að vinna mikið með breytanlegar flíkur sem hægt er að renna sundur og saman. Eins er fókusinn mikið á flíkur sem undirstrika persónueinkenni hvers og eins. Til að skera sig úr fjöldanum.“

Hunter Simms hefur unnið fyrir fjölmörg þekkt fyrirtæki í Bandaríkjunum.
Hunter Simms hefur unnið fyrir fjölmörg þekkt fyrirtæki í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Snoori­Bros

Ýr segir að viðskiptavinir hennar og Alexanders séu mikið til listamenn og fólk sem fer sínar eigin leiðir í lífinu. „Af þeim sökum fannst okkur tilvalið að kalla okkur stríðsmenn. Við erum í stríði við fábreytni og hönnum brynjur á aðra stríðsmenn.“

Hvernig lýsir þú fötunum?

„Grunnhugsunin er að byrja á þægilegum íþróttafötum sem eru með nýjum áherslum. Það er hægt að breyta buxunum í stuttbuxur og jökkunum í vesti. Fötin eru fyrir bæði konur og karla (e unisex) og er útgangspunkturinn flott breytanleg hönnun og góð efni.

Fatnaðurinn er flottur hversdagsklæðnaður en henta einnig vel í ræktina eða í útivist. Hugmyndafræði Warriör er svipuð og rappgengið Wu-Tang-Clan þar eð, við erum þrjú saman og hönnum undir merkjum Warriör en einnig í sitthvoru lagi okkar eigin sérstöðu.

Við ætlum okkur í samstarf með öðrum listamönnum til að auka á fjölbreytni. Fyrsti listamaðurinn sem við vinnum með verður kynntur í haust.“

Ýr segir að þau verði með opnun á nýju línunni þann 17. ágúst sama dag og Gleðigangan verður í Reykjavík. Að þau muni bjóða upp á boli og peysur með slagorð tengt Gleðigöngunni. Pop-up verslun með vörmerkinu er að Laugarvegi 7 og er einungis opin helgina 17. - 18. ágúst frá klukkan 12:00 - 20:00. Vefverslun verður opnuð sama dag og kvikmyndaverkið sýnt sem er unnið í samstarfi við SnooriBros. Vefsvæði verslunarinnar er www.warrior.is.

Ýr og Alexander ætla til New York í lok ágúst til að kynna vörumerkið fyrir mögulegum samstarfsaðilum og eru að undirbúa Pop-up verslun þar í nóvember. 

„Hluti vinnunnar mun fara fram í New York þar sem Simms er þaðan og mun vinna markaðsefni og kynningu á merkinu ytra. Vonandi getum við svo í framtíðinni verið með annan fótinn þar og haldið kynningar með reglulegu millibili.“


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál