Bestu brúðarklæðin samkvæmt stjörnumerkinu

Það er svo sannarlega úr nógu að moða.
Það er svo sannarlega úr nógu að moða. Samsett mynd

Brúðarkjóllinn er án efa einn mikilvægasti kjóll sem að kona klæðist á lífsleiðinni enda sannkölluð tímamótaflík. Það getur þó oft á tíðum reynst brúðum erfitt að velja hinn eina rétta til þess að kvænast þeim eina rétta í enda er úrvalið fjölbreytt, gullfallegt og litríkt. Glam gerði samantekt á því hvaða brúðarkjólastíll hentar hverju stjörnumerki.

Djarfur og áræðinn stíll – Hrúturinn (22. mars–19.apríl)

Brúður í þessu stjörnumerki er talin djörf, sjálfsörugg og klár í ævintýrið sem er framundan. Hún hefur tilhneigingu til þess að taka áhættur þegar kemur að tísku og er brúðarkjóllinn þar af leiðandi engin undanþága. Hrúturinn vill ekki sjá látleysi og einfaldleika. Hentugasti stíllinn fyrir brúði í hrútnum er því aðsniðinn og með fleygu hálsmáli, þunnum hlýrum og skreyttur glitrandi steinum eða fallegri blúndu. 

Tímalaus munaður – Nautið (20.apríl–20.maí)

Nautið er hagnýtt og jafnlynt en stenst þó vart munað. Þegar kemur að vali á brúðarkjól snýst þetta um þægindi, gæði og tímalausa klassík. Brúður í nautinu vill líkjast Hollywood–stjörnum fimmta og sjötta áratugarins og sýna kvenlegar línur og leyfa bæði háls og öxlum að njóta sín. „Off the shoulder“ kjóll með svokölluðu A-línusniði er upplagður fyrir brúði sem vill líða eins og Jackie Kennedy á brúðkaupsdaginn. 

Það besta úr báðum heimum – Tvíburinn (21.maí–21.júní)

Tvíburinn er frjáls og líflegur og vill klæðast brúðarkjól sem vinir og kunningjar gleyma seint. Brúður í tvíburanum er örlítið óákveðin og þráir bæði brúðarkjól í anda ballkjóls Öskubusku og einnig eitthvað djarft, nútímalegt og öðruvísi. Til þess að öðlast það besta úr báðum heimum er upplagt að finna kjól í öðrum lit en hinum hefðbundna hvíta eða kjól sem er hægt að breyta, t.d. með síðpilsi sem er hægt að fjarlægja. 

Krabbinn er hlynntur klassíkinni – Krabbinn (21.júní–22.júlí)

Krabbinn elskar rómantík og vill ekki taka neinar áhættur á brúðkaupsdaginn. Brúður í krabbanum vill hefðbundna stíla, jafnvel þá er minna á gamla tíma. Krabbinn laðast að tilfinningaríkum hlutum er vekja upp minningar og því ekki ólíklegt fyrir brúði að klæðast kjól frá fjölskyldumeðlimi. Ef að brúðurin ætlar að finna sér kjól þá er hjartalaga hálsmál einstaklega fallegt og klassískt. 

Ljónið elskar dramatík – Ljónið (23.júlí–22.ágúst)

Ljónið er djaft, öruggt og elskar að vera miðpunktur athyglinnar. Brúður í ljóninu þarf því fyrirferðarmikinn kjól sem glitrar og glansar. Tjull, ermar og opið bak gefa ljóninu hið fullkomna magn af glæsileika og dramatík.

Fágaður einfaldleiki – Meyjan (23.ágúst–22.september)

Meyjan er hagnýt, hógvær og snyrtileg. Brúður í stjörnumerkinu er líkleg til að vilja kjól úr flæðandi efni eins og chiffon og einfalda hönnun er sýnir náttúrufegurð brúðarinnar og leyfir henni að blómstra. Meyjan er það stjörnumerki sem getur lagað sig að breyttum straumum og árstíðum.

Faðmaðu litina – Vogin (23.september–22.október)

Vogin er daðurgjörn, fáguð og mikil félagsvera. Brúður í stjörnumerkinu vill finna hið fullkomna jafnvægi milli klassískrar rómantíkur og eggjandi þegar kemur að brúðarkjólnum. Kjólar í hinum svokallaða hafmeyjustíl henta vel enda fullkomin blanda af klassísku og nútímalegu. Skemmtilegir litir og mynstur eiga líka vel við brúði í voginni. 

Líkleg til að gifta sig í svörtu – Sporðdrekinn (23.október–21.nóvember)

Sporðdrekinn elskar dökka og djúpa tóna. Fyrir þeim er mikilvægt að nýta hvert augnablik til að tjá sitt innra eðli og sköpunargleði. Brúður í sporðdrekanum er óhrædd við að prófa eitthvað nýtt eða koma gestum sínum á óvænt eins og að mæta í töfrandi svörtum brúðarkjól með fallegri blúndu.

Bogmaðurinn er „boho–brúður“ – Bogmaðurinn (22.nóvember–21.desember)

Bogmaðurinn er frjáls, léttur og skemmtilegur. Brúður í stjörnumerkinu er líkleg til þess að velja brúðarkjól er endurspeglar hennar innra sjálf. Kjóll með fallegu flæði og mikilli blúndu á því vel við. 

Gott að gifta sig í samfestingi – Steingeitin (22.desember–19.janúar)

Steingeitin er hógvær þegar kemur að klæðaburði og framkomu. Hún vill þægindi og ekkert vesen á brúðkaupsdaginn. Samfestingur er því frábær brúðarfatnaður fyrir steingeitina enda notadrjúgur vel eftir sjálfan brúðkaupsdaginn. 

Pastellitir eru draumur – Vatnsberinn (20.janúar–18.febrúar)

Vatnsberinn er skapandi, sérkennilegur og elskar að hugsa út fyrir rammann. Brúður í vatnsberanum er mjög opin fyrir ólíkum kjólastílum en heillast þó alltaf að þessum hefðbundnu kjólum. Til þess að vera brúður, örlítið út fyrir rammann, er hægt að finna hefðbundna brúðarkjólastíla í pastellitum, bláa, fjólubláa eða gráa og vera því jafnt hefðbundin og frábrugðin. 

Flæði er fullkomið - Fiskurinn (19.febrúar–20.mars)

Fiskurinn er hæfileikaríkur, hugmyndaríkur, skilningsríkur og viðkvæmur. Þegar kemur að brúðarkjólnum ættu brúðir í merkinu að hugsa um fallegt flæði, þröngt mitti, fallegt hálsmál og útsaum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál