Theodór leysir lífsgátuna: Smitaðist af kynsjúkdóm og veit ekki hvað skal gera

Theodór Francis Birgisson segir það alrangt að öll pör haldi …
Theodór Francis Birgisson segir það alrangt að öll pör haldi framhjá hvort öðru. Samsett mynd

Theo­dór Franc­is Birg­is­son klín­ísk­ur fé­lags­ráðgjafi hjá Lausn­inni svara spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hann spurn­ingu frá konu sem fékk kynsjúkdóm vegna framhjáhalds en hún veit ekki hvort það er makinn sem smitaði hana eða föðurbróðir hans sem hún er líka búin að vera með.

Hæ hæ, 
 
Ég og maðurinn minn erum búin að vera saman í 12 ár. Nýlega fór ég í skoðun hjá kvennasjúkdómalækni þar sem kemur í ljós að ég er með klamydíu. 
Ég veit að hann hefur verið að halda framhjá en það er bara vegna þess að ég hélt framhjá honum með föðurbróður hans fyrir 3 árum. Hann er bara svo langrækinn að hann hefur ekki fyrirgefið það og ef ég á að vera heiðarleg við sjálfa mig þá á hann þetta alveg inni. 
 
En núna veit ég ekki hvort að föðurbróðir hans gaf mér klamydíuna eða maðurinn minn og ég vil ekki segja honum að er viti af öllum ungu stelpunum sem hann er að sofa hjá, ég veit að þetta er bara tímabil sem öll hjón ganga í gegnum „eins og árstíðirnar nema framtíðirnar“. Það er auðvitað líka bara þannig að allir sem verið hafa í langtíma sambandi halda framhjá, pör leita alltaf út fyrir sambandið þegar sambandsleiðinn gerir vart við sig. Það er auðvitað bara holt fyrir sambandið að samviskubitið minni mann á að af hverju maður elskar manneskjuna og fólk vill almennt helst ekki særa manneskjuna að óþörfu. 
 
En núna er vandinn að ég veit ekki hvernig ég get rætt þessa klamydíu við hann. Hvernig ætti ég að ræða þetta eða ætti ég bara að sleppa því? 
 
Kveðja og með von um svör,

XXX 

 

Sæl og blessuð XXX.  

Mig langar að byrja á að leiðrétta misskilning sem ég les úr spurningu þinni. Það er alls ekki þannig að allir haldi framhjá og að það sé eðlilegur þáttur í öllum samböndum. Það er heldur ekki hollt né uppbyggjandi fyrir sambönd að halda framhjá og það er afar hættuleg og ólíkleg leið til að styrkja sambönd. Vissulega eru margir sem hafa haldið framhjá sem hafa náð að gera samband sitt mun betra eftir framhjáhald þar sem þeir sjá betur hvað þeir áttu og vilja sinna því enn betur en þeir gerðu áður.

Það sama á við þá sem lifa af lífshættulega sjúkdóma, eins og til dæmis heilaæxli, þeir meta lífið mun meira en þeir gerðu fyrr. Það er samt ekki góð leið til að læra að meta lífið að fá heilaæxli. Varðandi klamydíuna þá þarftu fyrst að gera upp hug þinn um hvort þú og þið ætlið að láta það vera eðlilegan þátt í sambandi ykkar að halda framhjá.

Ef það verður ofaná skiptir engu máli hvort þú segir honum frá því eða ekki. Það eru þá hvort sem er fullt af leyndarmálum í sambandinu og eitt leyndarmál til eða frá breytir engu. Það er samt rétt að taka fram að þeir fræðimenn sem mest hafa rannsakað parsambönd og framhjáhöld (t.d. Esther Perel og John Gottman) eru einhuga um að leyndarmál eiga aldrei að vera til í parsamböndum. Ég myndi því ráðleggja ykkur að hætta öllum þreifingum með öðrum en ykkur sjálfum og minni á að grasið er ekkert grænna hinum megin, það er grænna þeim megin sem þú vökvar það. Með von um að þetta hjálpi.

Kær kveðja,

Theodór

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Theodór spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál