Maðurinn fór til útlanda og svaf hjá samstarfskonu - hvað er til ráða?

Áslaug Kristjánsdóttir.
Áslaug Kristjánsdóttir. Samsett mynd

Áslaug Kristjáns­dótt­ir hjúkr­un­ar- og kyn­fræðing­ur og höf­und­ur bók­ar­inn­ar Lífið er kyn­líf svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er búin að vera í sambandi í 32 ár. Þau gerðu samkomulag en svo braut hann það. Hvað er til ráða?

Sæl Áslaug 

Ég og maðurinn minn erum búin að vera saman í 32 ár og erum mjög hamingjusöm. Við höfum mismikla kynhvöt. Við komumst að því samkomulagi að opna hjónabandið en þar sem Ísland er lítið land gerðum við það samkomulag að hann mætti sofa hjá öðrum konum þegar hann væri erlendis og ekki með íslenskum konum. Ég sjálf hef lítinn áhuga á kynlífi með öðrum.  

Hann ferðast mikið, spilar golf erlendis og fer á skíði með félögum sínum þannig tækifærin eru töluverð. Þetta hefur virkað ágætlega. Í vor fór hann til útlanda í vinnuferð og svaf hjá samstarfskonu sinni. Það kom í ljós að hann hélt áfram að sofa hjá henni þegar heim var komið sem var ekki innan rammans sem við höfðum ákveðið. 

Mér finnst fyrirkomulagið ekki gott lengur. Ég vil ekki skilja við hann, hann er ennþá besti vinur minn. Hann vill hins vegar ekki loka hjónabandinu og er byrjaður að túlka regluna ansi vítt. Ég er alveg miður mín. Eigum við einhverja framtíð? 

Kærar þakkir,  

Íslensk kona efast um samband sitt og leitar ráða.
Íslensk kona efast um samband sitt og leitar ráða. Dainis Graveris/Unsplash

Kæra L,

Það virðist vera sama hvort fólk er í lokuðu eða opnu sambandi að svik eru sársaukafull. Reynslan hefur kennt mér að reglur sambanda eru brotnar óháð sambandsformi. En hún hefur líka kennt mér að fólk kemst yfir erfiðleika þrátt fyrir sársauka og svik. Ef við horfum á tölfræðina segir hún okkur að meirihluti para heldur áfram í ástarsambandi þrátt fyrir trúnaðarbrot. Þannig stutta svarið er já, þið eigið góða möguleika á framtíð saman þrátt fyrir að þið séuð ósammála núna. Hins vegar er kúnst að vinna úr trúnaðarbresti svo að vel verði.

Möguleg ástæða þess að fólk vill vinna í sambandinu þrátt fyrir samningsbrot er að spennan sem fylgir hinu óþekkta sé ástæðan fyrir því að fólk vill kynlíf með öðrum frekar en skortur á ást á makanum. Svo þegar bætist ofan á sú staðreynd að það er spennandi að gera það sem má ekki verður kynlíf með öðrum enn meira spennandi. Við viljum fá það sem við eigum ekki. Samningsbrot er þá í eðli sínu löngun eftir því sem ekki má og því sem þú munt aldrei eiga frekar en yfirlýsing um að hjónabandið sé búið. 

Þetta getur í mínum huga verið útskýring á því að meirihluti para sem upplifa eitthvað í líkingu við það sem þú lýsir halda áfram í sambandinu. Þegar spennunni hefur verið svalað með því að stíga útfyrir sambandið áttar fólk sig oft á því að það elskar makann sinn og er í sambandi sem það hefur fjárfest í. Það vill ekki gefa það upp á bátinn þrátt fyrir að hafa upplifað eitthvað nýtt og spennandi með annarri manneskju. Aðrir átta sig hins vegar á að þeim þykir hjónabandið ekki þess virði að berjast fyrir eða þá skortir löngun til þess að halda því áfram. Það er jú þannig að ekki er hægt að bjarga öllum hjónaböndum og kannski engin ástæða til þess. Þið þurfið að finna hvorum hópnum þið tilheyrið.

Samningsbrot getur þýtt endalok hjónabands og er líklega endalok allra hjónabanda eins og þau voru. En við endalok merkjum við einnig nýtt upphaf. Þegar einar dyr lokast opnast aðrar. Fólk hefur upplifað nýtt hjónaband eftir slíkar raunir jafnvel þó það sé áfram gift sömu manneskjunni. Fátt í lífinu er svo einfalt að það sé annað hvort í lagi eða ónýtt. En yfirleitt er það þó svo að strax eftir að upp kemst um brot skapast krísuástand. Þá er oft tilfinning fólks sú að heimurinn hafi hrunið og hjónabandið sé ónýtt eða því verði að ljúka. Ég veit að ekki er skynsamlegt að taka ákvarðanir á slíkum tíma því þær verða litaðar tilfinningum sem eru ekki í jafnvægi. Í krísu þarf fólk að reyna að anda rólega og skoða sambandið frá öllum hliðum. Það er almennt erfitt því heilinn í okkur vill já eða nei ákvörðun til að losa okkur við erfiðar tilfinningar.

Í kjölfar samningsbrots mæli ég með að par skoði traust í víðu samhengi í sínu sambandi. Næst þarf að gera upp við sig hvort þið finnið nóg traust til að geta lifað saman og haldið áfram. Á álagstímum sem þessum er nytsamlegt að læra og temja sér árangursrík samskipti og hvernig má leysa ágreining. Þetta tvennt er talið besta vörnin gegn skilnuðum og sambandsslitum

Ef þú vilt lesa meira um hvernig ég vinn með fólki sem upplifað hefur samningsbrot getur þú lesið pistil sem ég skrifaði og er á heimasíðunni minni. Hann heitir Framhjáhald - dauði eða nýtt upphaf?

Lesa má um samskipti og hvernig pör leysa ágreining í bókinni Lífið er kynlíf - handbók kynfræðings um langtímasambönd. 

Kær kveðja,

Áslaug

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Áslaugu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál