Getur þú flutt í skattaparadís til að sleppa við skattheimtu?

AFP

Vala Valtýsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem veltir fyrir sér að færa lögheimili sitt í skattaparadís. 

Góðan dag,

Ég er á fertugsaldri. Þegar ég verð 67 ára þá fæ ég greiddan út viðbótalífeyrissparnað sem ég hef safnað frá því að ég fór út á vinnumarkaðinn. Þetta er töluverð upphæð. Þó svo að ég borgi mína skatta með glöðu geði þá hryllir mig við því fá bara „helminginn“ af þessari upphæð. Hvað ef ég flyt lögheimilið mitt í einhverja skattaparadís áður en til útgreiðslu kemur? Hljómar eins og að það muni borga sig? Hvað segir þú með það?

Kveðja, 

NB

Vala Valtýsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Vala Valtýsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Sæl NB. 

Samkvæmt íslenskum tekjuskattslögum ber þeim einstaklingum sem eru heimilisfastir hér á landi að greiða skatta af öllum sínum tekjum hvar sem þeirra er aflað. Sama á við þá sem hafa verið heimilisfastir hér á landi en flutt úr landi og fellt hafa niður heimilisfesti sitt hér, nema þeir sanni að þeir séu skattskyldir í öðru ríki á sama hátt og menn heimilisfastir þar og hafi fullnægt þeim skattskyldum sínum. Skattskylda þessi gildir þó aðeins í þrjú ár frá næstu áramótum eftir brottflutningsdag.

Hér er meginatriði að einstaklingar eru skattskyldir þar sem þeir raunverulega búa og ekki er hægt að flytja lögheimili sitt eingöngu í þeim tilgangi að sleppa við skattskyldu. Ef svo vill til að einstaklingur sannanlega flytur úr landi ber hann sennilega skattskyldu í því landi sem hann flyst til en getur einnig þurft að greiða skatt af þessum tekjum á Íslandi. Skattamál milli landa geta verið flókin og kemur þá einnig til skoðunar hvort  Ísland og það ríki sem einstaklingur hefur flust til hafi gert tvísköttunarsamning milli landanna. Ráðlegging mín er því sú að ef einstaklingur hefur hug á að flytjast af landi brott þá er skynsamlegt að leita ráða hjá skattasérfræðingi áður en slíkt er gert.

Kveðja, 

Vala Valtýsdóttir lögmaður. 

Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál