Ósátt við að foreldrarnir dæli peningum í bróðurinn

Systkini eru ósátt við að bróðir þeirra sé stöðugt að …
Systkini eru ósátt við að bróðir þeirra sé stöðugt að fá lánaða peninga hjá öldruðum foreldrum þeirra. Ljósmynd/Unsplash

Alma Hafsteinsdóttir fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með sérhæfingu í spilafíkn svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá systkinum manns sem er langt leiddur spilafíkill 

Sæl Alma 

Ég veit ekki alveg hvað við systkinin eigum að gera en það kom upp nýlega að bróðir okkar hefur verið að fá lánaða peninga hjá öldruðum foreldrum okkar. Þetta virðast vera miklir peningar og við erum ekki að sjá fram á að hann komi nokkurn tímann til með að geta borgað foreldum okkar þetta til baka. Það er samt ekki aðalvandinn heldur hefur hann verið að fara að með þessa peninga í spilakassa og hann getur ekki hætt. Hann hefur lofað okkur að hætta og  hann sé búinn að fá nóg en svo komust við að því núna um daginn að hann er byrjaður að spila aftur. Við vorum svo vongóð að nú væri þetta að koma hjá honum og við sáum breytta líðan og hegðun en núna um mánaðamótin virðist allt farið í sama far. Hann segist vera tilbúinn til að fara í meðferð en enga meðferð sé að fá en hann hefur prófað að fara á GA-fundi en er ekki að finna sig þar og vill ekki fara á þá. Getur þú leiðbeint okkur um hvernig við getum hjálpað honum sem best?

Kveðja,
K

Alma Hafsteinsdóttir.
Alma Hafsteinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Sæl K

Takk fyrir fyrirspurnina. Miðað við þær upplýsingar  sem þú gefur upp virðist bróðir þinn gera sér grein fyrir vandanum að hluta til. Varðandi meðferð þá er engin meðferð í þeim skilningi að hann fari í innlögn og vinni þar í bata sínum frá spilafíkn, hér á Íslandi. Það er í boði að fara í einkaviðtöl og svo hafa verið hóptímar og eins helgarnámskeið í fyrirlestrarformi. Varðandi GA-fundina þá er þetta mjög þekkt að fólk finni sig ekki fyrst til að byrja með og sé mótfallið því að fara á slíka fundi.

Ég hef hvatt spilafíkla til að nýta sér GA-fundi og þá lagt til að fólk hlusti frekar eftir því sem það á sameiginlegt en oft einblínir fólk of mikið á hvað það á ekki sameiginlegt með fundarmönnum. Einstaklingar eiga oft erfitt fyrst til að byrja með að átta sig á hverjar  afleiðingar spilafíknar eru í lífi sínu og hafa tilhneigingu til að vanmeta skaðann og gera lítið úr afleiðingum spilafíknar sinnar, þ.e. þetta sé nú ekki eins slæmt og ástvinir vilji meina. Það tekur tíma fyrir fólk að komast í tengsl við raunstöðu og það er allt í lagi svo framarlega sem viðkomandi einstaklingur er tilbúinn að vinna í því og reyna að taka ábyrgð á sjálfum sér. Oft getur það hjálpað spilafíklum að fá sér fjárhaldsmann og mögulega treystir einhver af ykkur sér til að taka það að sér.

Það er ekki hugsað til að taka ábyrgð á fjármálum spilafíkilsins heldur meira til að taka við peningum og halda utan um þá og gefa þá viðkomandi einstaklingi meira svigrúm til að einbeita sér að batanum og koma grunnþörfum sínum í jafnvægi. Oft hjálpar þetta fólki og eins ástvinum að vera hluti af batanum. Það er mjög mikilvægt að traust ríki milli aðila og rætt sé opinskátt um stöðu í fjármálum.

Varðandi foreldra þína þá kom ekki skýrt fram hvort þessir peningar hafi verið lánaðir með það fyrir augum að þeir myndu verða greiddir til baka eða hvort um gjafir var að ræða af þeirra hálfu. Ég ráðlegg ykkur að ræða það saman og finna sameiginlega lausn hvort sem þið gerið endurgreiðsluáætlun eða ræðið að hann hætti að fá lánaða peninga hjá foreldrum ykkar. Það er mjög mikilvægt að spilafíklar taki ábyrgð í eigin lífi og fjármálum. Það eru í boði fyrir aðstandendur spilafíkla sambærilegir fundir og eins eru fjölskyldunámskeið í boði. Ég hvet ykkur eindregið til að kynna ykkur hvaða aðstoð er í boði fyrir ykkur og mun það  vissulega hjálpa ykkur að hjálpa honum.

Gangi ykkur vel og endilega hvetjið hann til að nota öll þau úrræði sem í boði eru.

Kær kveðja,

Alma Hafsteinsdóttir fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ölmu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál