Einstakt heimili Katrínar í bleikum páskabúningi

Katrín Garðarsdóttir kann að gera fallegt í kringum sig.
Katrín Garðarsdóttir kann að gera fallegt í kringum sig.

Katrín Garðarsdóttir eigandi Golfa.is nýtir oft páskafríið til þess að skella sér í golf en að þessu sinni ætlar hún að njóta þess að vera heima og slappa af. Katrín á einstaklega fallegt heimili og elskar að taka á móti góðum gestum.

„Við fjölskyldan höfum stundum farið til Þýskalands í golf en ætlum að njóta þess að vera heima núna. Sonur minn er hins vegar forfallinn golfari og ætlar með vini sínum til Spánar að spila golf. Páskarnir eru eiginlega bestu fríin. Svo ólíkir jólastússinu sem oft snýst um að gera svo margt á fáum dögum. Vorið alveg að koma og jafnvel hægt að nýta einhvern daginn til að taka til hendinni í garðinum ef vel viðrar,“ segir Katrín þegar hún er spurð hvernig páskarnir verði í ár.

Ferðu þá með páskaegg með þér út?

„Í fyrra tók ég með páskaegg en það var reyndar til þess að mágur minn sem býr í Frankfurt fengi nú almennilegt íslenskt páskaegg. Það er nefnilega þannig á mínu heimili að það er oft búið að borða svo mörg páskaegg löngu áður en sjálfir páskarnir koma að það er þá bara komið nóg,“ segir Katrín.

„Páskahaldið hjá mér er ekkert sérstaklega hefðbundið. Það snýst mest um að slaka á, borða góðan mat og fá sér páskaegg. Stundum koma vinir og fjölskylda í mat hjá okkur einhverja þessara daga, og verður örugglega þannig núna.“

Páskalegt en smart.
Páskalegt en smart. mbl.is/Árni Sæberg

Útsýnið bætir lífið

Hvernig skreytir þú heimilið um páskana?

„Eins mikið og mér finnst gaman að skreyta og setja upp seríur fyrir jól þá eru páskarnir lágstemmdari í skreytingum. Ég er með stóra eyju í eldhúsinu og er þar með stóran bakka þar sem ég er alltaf að skipta um litaþema, kerti og blóm. Það fer eftir árstíð og öðrum þemum innan ársins. Ef það er afmæli þá fær afmælisbarnið sitt þema á bakkann.“

Glösin koma vel út á páskaborðinu.
Glösin koma vel út á páskaborðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað finnst þér einkenna falleg heimili?

„Fallegt heimili þarf að búa yfir hlýju, góðu og afslöppuðu andrúmslofti og að þeim gestum sem koma á heimilið finnist þeir velkomnir. Ég vona að þannig upplifi mínir gestir að koma til mín.“

Áttu þér uppáhaldsstað á heimilinu?

„Minn uppáhaldsstaður á heimilinu er í stofunni, þar get ég setið og horft út á vatnið, móann þar sem hestar hlaupa um og síðast en ekki síst séð þegar farfuglarnir koma. Það eru lífsgæði sem jafnast á við sálgæslu.“

Litlu pavlovurnar eru sérstaklega girnilegar.
Litlu pavlovurnar eru sérstaklega girnilegar. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað finnst þér ómissandi að bjóða upp á um páskana?

„Á mínu heimili erum við mæðgurnar allsráðandi í eldhúsinu og hjálpumst að. Reyndar er maðurinn minn mjög góður í að velja gott vín með matnum og svo er hann liðtækur í að ganga frá og vaska upp. Þar sem afmælisdag heimasætunnar ber oft upp á páskana þá höfum við flottan morgunmat eða bröns fyrir fjölskylduna. Þá er oftast eitt af því sem ég geri litlar pavlovur og ég set þá matarlit í deigið og læt pavlovurnar fá á sig marmaraútlit.“

Það er óþarfi að nota dúk þegar diskamotturnar eru fallegar.
Það er óþarfi að nota dúk þegar diskamotturnar eru fallegar. mbl.is/Árni Sæberg

Hvernig klæðirðu þig um páskana?

„Mér finnst alltaf gaman að klæðast kjól og mun örugglega gera það um páskana enda nóg af þeim í fataskápnum. Annars finnst mér líka fínt að vera í buxum, blússu og góðum jakka, það passar alltaf hvar sem er.“

Katrín Garðarsdóttir á falleg föt og smart heimili.
Katrín Garðarsdóttir á falleg föt og smart heimili. mbl.is/Árni Sæberg

Bíður eftir að grasið fari að grænka

Katrín veitt fátt betra en að spila golf með fjölskyldu og vinum. „Golfferðir eru auðvitað það sem mér finnst skemmtilegast. Fjölskyldumeðlimir eru hver og einn á sínu getustigi í golfinu en við getum öll spilað saman og það er mjög ánægjulegt,“ segir Katrín um skemmtilegustu utanlandsferðirnar um páskana. Golfáhuginn er svo mikill að hún stofnaði eigin vefverslun þar sem hún selur golfföt á konur.

„Þessar vikurnar eru konur almennt farnar að huga að golfsumrinu. Margar eru farnar að fara í vorferðir erlendis eða hópar að undirbúa sig fyrir tímabilið. Ég er svo lánsöm að vinnan mín snýst um áhugamálið sem er golf og fatnaður,“ segir Katrín sem býður meðal annars konur velkomnar inn á fallega heimilið sitt að máta en auk þess að vera með vefverslun er hún búin að innrétta bílskúrinn sem litla verslun. „Ég er þar á heimavelli, elska að aðstoða konur sem eru að velja sér falleg golfdress. Svo bíð ég bara sjálf eftir að sjá grasið grænka og komast eitthvað út á völl og slá golfbolta,“ segir Katrín að lokum.

Katrín er mikil golfkona.
Katrín er mikil golfkona. mbl.is/Árni Sæberg

Litlar pavlovur

6 eggjahvítur

300 g sykur

1½ tsk. borðedik

1 tsk. vanilla

smá salt

matarlitur að eigin vali

Þeytið eggjahvítur og salt. Bætið sykrinum smátt og smátt við. Bætið vanillu og ediki í þegar marengsinn er orðinn stífur. Blandið nokkrum dropum af matarlit að eigin vali út í deigið og hrærið matarlitnum með grillpinna þannig að deigið taki á sig marmaraáferð. Passið að blanda litnum létt við svo að deigið verði ekki einlitt. Notið matskeið til að búa til litlar kökur á bökunarpappír. Að lokum er gott að þrýsta aðeins á miðjuna með lítilli teskeið til að búa til lítið hreiður. Bakið við 100° í 90 mínútur.

Til skrauts

½ l þeyttur rjómi

1 msk. sykur

1 tsk. vanilla

Skreytið með jarðarberjum eða því sem hentar.

Rauður matarlitur er lykillinn.
Rauður matarlitur er lykillinn. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál