Þorir varla út úr húsi vegna geitungahræðslu

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda Smartlands.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda Smartlands. Samsett mynd

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur hjá Sálarlíf sálfræðistofu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér svarar hún bréfi frá konu sem glímir við svo mikla geitungahræðslu að hún þorir varla að fara út úr húsi yfir sumartímann.

Sæl

Mig langar að leita ráða hjá þér. En þannig er mál með vexti að ég er 35 ára gömul tveggja barna móðir og glími við mikla geitungahræðslu. Þetta er orðið vaxandi vandamál hjá mér og einnig er dóttir mín sem er 9 ára orðin mjög hrædd við geitunga, hún var það ekki þegar hún var yngri.

Þetta er orðið það mikið vandamál að ég þori varla að fara út fyrir hússins dyr yfir sumartímann og er ég farin að skammast mín fyrir þessa hræðslu mína. En fyrir utan þessa miklu geitungahræðslu þá líður mér nokkuð vel og er í ágætis jafnvægi. Hvað get ég gert?

Kveðja,

A

Sæl

Takk fyrir að hafa samband.

Það sem þú glímir við kallast „sértæk fælni“ eða „afmörkuð fælni“ og er hún skilgreind sem kvíðaröskun og lýsir sér þannig að einstaklingar finna fyrir yfirdrifnum ótta við afmarkað áreiti eða aðstæður sem í raun og veru stafar ekki nein hætta af. Þessi fælni getur t.d. tengst skordýrum, köngulóm, geitungum eins og í þínu tilfelli, hundum, vatni, sprautum, blóði. Einnig gæti þessi afmarkaða fælni tengst lofthræðslu (t.d. flughræðslu) eða hræðslu við innilokun (t.d. að festast í lyftu). Ef ekkert er að gert þá getur „sértæk fælni“ haft hamlandi áhrif á daglegt líf einstaklingsins, eins og mér heyrist vera í þínu tilfelli, en þú nefnir að þú þorir varla út fyrir hússins dyr yfir sumartímann.

Þá nefnir þú að níu ára dóttir þín sé einnig farin að sýna geitungahræðslu, en það er ekki óalgengt að börn hræðist það sama og foreldrar sínir, þ.e.a.s. ef þau sjá hvernig foreldrar bregðast við í ákveðnum aðstæðum. Ef dóttir þín sér þig t.d. hlaupa inn, eða stöðva bílinn og hlaupa út því það var geitungur inni í bíl, þá fær hún þau skýru skilaboð um að geitungar séu mjög hættulegir og eina leiðin sé að forða sér í burtu ef einn slíkur verður á vegi ykkar.

Sértæk fælni er frekar auðveld í meðferð og algengasta meðferðin sem sálfræðingar nota er hugræn atferlismeðferð og oft dugar að koma í eitt til tvö meðferðarskipti, tímarnir geta þó verið mislangir. Meðferðin snýst um að einstaklingar læri að bregðast rétt við í aðstæðum sem eru orsakavaldur óttans. Þar er berskjöldun notuð, en þá er farið inn í þær aðstæður þar sem óttinn kemur upp, t.d. að vera inni í herbergi þar sem geitungur er úti í glugga. Berskjöldunin er gerð í skrefum og þar ræður einstaklingurinn ferðinni og smám saman fer einstaklingurinn að upplifa öryggi í aðstæðunum.

Ég mæli eindregið með því að þú pantir þér tíma hjá sálfræðingi á stofu og fáir aðstoð við að ná stjórn á geitungafælninni. „Sértæk fælni“ er frekar algeng kvíðaröskun og talið er að hún hrjái í kringum 12% einstaklinga en á móti kemur þá er þetta einnig sú kvíðaröskun sem fæstir leita sér aðstoðar við sem er bagalegt því meðferðarárangur er eins og fyrr segir góður og oft hægt að ná tökum á vandanum á frekar stuttum tíma.

Gangi þér sem allra best!

Kveðja, Tinna Rut.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Tinnu Rut spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál