Hnoðuð lagterta með alvöru biti

Jólamatur
Jólamatur Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Gunnlaugur Arnar Ingason, eða Gulli Arnar eins og flestir kalla hann, er orðinn þekktur fyrir kræsingarnar sínar en hann rekur handverksbakaríið Gulli Arnar.

Bakaríið hefur stækkað og dafnað á þeim fjórum árum sem það hefur verið í rekstri en frá upphafi hefur verið haldið fast í þau gildi að framleiða hágæðavöru frá grunni á staðnum.

Gulli Arnar segir að þessa dagana séu jólavörurnar allsráðandi í bakaríinu, til að mynda sörur og lagtertur. „Ég á æskuminningar af lagtertum en lagtertur eru ýmist hnoðaðar eða hrærðar.

Okkar lagtertur eru hnoðaðar en ég er hrifnari af þeim því mér finnst vera meiri áferð og „bit“ í hnoðuðu lagtertunum.“

Gulli Arnar bakari á margar æskuminningar tengdar lagtertum en honum …
Gulli Arnar bakari á margar æskuminningar tengdar lagtertum en honum finnst best að borða hnoðaðar lagtertur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brún lagterta

  • 1800 g hveiti
  • 250 g sykur
  • 500 g smjör
  • 300 g púðursykur
  • 700 g síróp
  • 300 g AB-mjólk
  • 300 g egg
  • 25 g matarsódi
  • 15 g brúnkökukrydd frá Flóru
  • 20 g kakó
  • 30 g kanill

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman í hrærivél og hnoðið með krók eða með höndunum í stórri skál og setjið í plastfilmu.
  2. Geymið deigið í kæli í 12 tíma eða lengur.
  3. Fletjið deigið út með kökukefli á bökunarplötur og stingið göt í deigið með gaffli.
  4. Bakið við 180 gráður í 6-10 mínútur eftir því hversu þykkir botnarnir voru.

Krem

  • 500 g smjör
  • 500 g flórsykur
  • 2 tsk. vanilludropar

Aðferð:

  1. Þeytið smjörið vel upp.
  2. Blandið saman flórsykri og vanilludropum og þeytið með smjörinu.

Þessa uppskrift, sem og aðrar, má finna í blaðinu Hátíðarmat frá Hagkaup sem er hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka