Rice krispies súkkulaðiturn og Kropp marenstertan hans Árna

Kropp marensterta með perum og Rice Krispies súkkulaðiturn að hætti …
Kropp marensterta með perum og Rice Krispies súkkulaðiturn að hætti Árna Þorvarðarsonar bakarameistara sem njóta mikilla hylli í fermingarveislum. mbl.is/Árni Sæberg

Þar sem fermingatímabilið er nú komið á fullt og súkkulaðihátíðin, páskarnir, eru í nánd opnar Árni Þor­varðar­son bak­arameistari og kenn­ari við Hót­el- og mat­væla­skól­ann upp­skrifta­bæk­urn­ar sín­ar en á ný fyrir lesendur matarvefsins. Að þessu sinni deilir hann með lesendum tveimur uppskriftum að kökum sem ávallt slá í gegn í fermingarveislum og í raun alls staðar þar sem þær eru bornar á borð.

Hefur verið við lýði í mörg ár

Þetta er annars vegar Rice Krispies súkkulaðiturn sem Árni hefur sjálfur mikið dálæti af og ekta marensbomba með perum sem marensunnendur eiga eftir að missa sig yfir.

„Þessi tegund af kransaköku hefur verið við lýðið í mörg ár bæði í fermingum, skírnarveislum og afmælum. Oft er turninn hafður fyrir krakkana en fullorðna fólkið er ekki síður að fá sér bita. Þessi uppskrift inniheldur hjúpsúkkulaði til þess að hringirnir eigi betur með að standa í stofuhita. Með því að nota þessa tegund súkkulaðis er hægt að gera kökuna fyrir fram og láta hana standa klára á veisluborðinu í lengri tíma. Skreytingin getur verið allavega, litir í stíl við þema veislunnar, sælgæti, konfekt eða bara hvað sem fólki dettur í hug. Oft ráðlegg ég að notaðir séu litir sem skera sig úr brúna undirlaginu en það gefur turninum meiri klassa,“ segir Árni.

Árni Þorvarðarson kann sitt fag og veit hvað hittir í …
Árni Þorvarðarson kann sitt fag og veit hvað hittir í mark í veislum landsmanna þegar kökur og kræsingar eru annars vegar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Niðursoðnar perur sem fylling

Síðan er það marensbomban, Kropp marenstertan, hans Árna með perum. „Hér er um að ræða hina dæmigerðu marenstertu sem er svo oft á veisluborðum landans. Mér finnst persónulega gott að vera með niðursoðnar perur sem fyllingu til að bleyta vel upp í botninum. Það er mjög gott að dreifa mjólkursúkkulaðikreminu vel yfir perurnar en það hindrar að perurnar þorni og verði harðar. Rjóminn sem er á milli botnanna lokar perurnar líka vel inni. Flott er að skreyta með því sem er í tertunni eins og hér, kroppi, súkkulaði og perum,“ segir Árni að lokum og veit að hið gamla góða, klassíska slær ávallt í gegn.

Rice krispies súkkulaðiturn með þristum

  • 240 g síróp
  • 480 g hjúpsúkkulaði
  • 150 g smjör
  • 280 g Rice Krispies
  • 1 pk lakkrísþristar

Aðferð:

  1. Skerið þristana í smáa bita.
  2. Skerið súkkulaðihjúpinn niður í smábita.
  3. Hitið upp síróp, súkkulaði, smjör og þrista þar til það bráðnar.
  4. Setjið Rice Krispies í skál og hellið súkkulaðiblöndunni yfir.
  5. Leyfið blöndunni að kólna aðeins áður en unnið er með hana.
  6. Gott er að hafa kransakökuhringi til að móta í.
  7. Einnig er gott að vera í hönskum við þetta því deigið getur verið heitt og loðir minna við þig ef í hönskum.
  8. Eftir að búið er að móta hringina skaltu búa til litla munnbita úr restinni.
  9. Setjið í kæli eða frysti í smá stund svo hringirnir full harðni áður þú staflar þeim upp.
  10. Fallegt að skreyta með einhverju sem tengist veislunni eða til dæmis þristakúlum eða litríku konfekti.
  11. Ef flytja á kökuna milli húsa mæli ég með að hringirnir séu límdir saman með súkkulaði.

Kropp marensterta að hætti Árna

  • 160 g sykur   
  • 160 g púðursykur                 
  • 150 g eggjahvítur     
  • 50 g Rice Krispies     

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 120°C hita við blástur.
  2. Þeytið eggjahvítur, sykur og púðursykur saman þar til marengsinn er orðinn stífur eða í um 10 til 15 mínútur.
  3. Leggið disk eða kökuform sem er ca. 23 cm í þvermál á bökunarpappír og strikið út hring eftir disknum. Gerið þetta tvisvar eða þrisvar eftir stærð og magni af marens.
  4. Smyrjið innan í hringina á pappírnum.
  5. Bakið í 60 mínútur á 100°C hita.
  6. Látið kólna áður en fyllingin fer á.

Mjólkursúkkulaðikrem

  • 100 g mjólkursúkkulaði
  • 80 g rjómi

Aðferð:

  1. Vigtið súkkulaðið í skál.
  2. Hitið rjómann að suðu og hellið yfir súkkulaðið.
  3. Hrærið rólega þar til súkkulaðið bráðnar.
  4. Leyfið kreminu að standa og ná stofuhita áður en það er sett á tertuna.

Fylling

  • 300 g þeyttur rjómi
  • 1 dós niðursuðu perur
  • 1 pk. Nóakropp

Aðferð:

  1. Skerið perurnar niður og dreifið yfir botninn.
  2. Setjið mjólkursúkkulaðikremið yfir perurnar.
  3. Nóakroppið er svo sett ofan á kremið. 
  4. Þeytið rjómann og blandið súkkulaðikreminu við hann eftir að það er búið að setja bæði yfir botn og lok.
  5. Blandið restinni af mjólkursúkkulaðikreminu varlega saman við rjómann og á milli.
  6. Lokið með hinum marensnum, gott er að geyma í kæli að lágmarki yfir nótt.
  7. Skreytið og berið fram eins og hugurinn girnist.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert