Heimalagað gnocchi úr kotasælu með fjögurra-osta-sósu

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Halla Bára Gestsdóttir á Home & delicious galdrar hér fram ómótstæðilegt gnocchi sem við hvetjum ykkur heilshugar til að prófa.

„Þetta er langur titill en segir það sem segja þarf. Fjölskyldan er hrifin af gnocchi, pasta sem er yfirleitt gert úr kartöflum en líka úr ríkottaosti. Það er einfalt að gera heimalagað gnocchi og líka gaman. Í þessari uppskrift eru hvorki notaðar kartöflur né ríkottaostur heldur kotasæla. Kotasæluna má í mörgum tilfellum nota í staðinn fyrir ríkottaost í mat og bakstur og hér kemur það vel út. Hver getur síðan staðist fjögurra-osta-sósu yfirhöfuð?“ segir Halla Bára og við tökum heilshugar undir það.

Gnocchi úr kotasælu

  • 400 g kotasæla
  • 180 g hveiti
  • 4 msk. brauðmylsna
  • ½ til 1 tsk. salt og pipar
  • ½ tsk af þurrkuðu múskati

1. Byrjið á því að setja kotasæluna í sigti og láta renna vel af henni, því lengur því betra verður að eiga við hana. Þegar ykkur finnst töluverður vökvi hafa farið af henni, þá þarf að stappa hana vel, setja í matvinnsluvél eða nota töfrasprota, svo hún fái á sig fíngerðari áferð.

2. Setjið kotasæluna í stóra skál, ásamt hveiti og bauðmylsnu, saltið og piprið og stráið múskati yfir. Hrærið vel saman með gaffli til að byrja með og síðan þurfið þið að hnoða deigið saman. Ef það er of blautt bætið þá brauðmylsnu saman við. Rúllið upp í pylsustærð, hafið þykktina um 2 cm.

3. Skerið í bita, um 2 cm að lengd. Takið hvern bita og mótið hann eftir skurðinn, rúllið milli fingranna, fallegt að þrýsta gaffli ofan á hvern bita og ná í hann röndum. Raðið á bakka með hreinu viskastykki, setjið annað ofan á og látið standa í um 30 mínútur.

4. Setjið vatn í pott og alltaf er betra, og nauðsyn, að sjóða ferskt pasta í stórum potti og með nægu vatni. Látið suðuna koma upp og saltið vatnið. Leggið gnocchi-bitana varlega í vatnið og ekki allan skammtinn í einu. Þeir eru tilbúnir þegar þeir fara að fljóta vel í vatninu, smakkið samt einn til að sjá hvort þið viljið hafa þá mýkri. Athugið að sjóða ekki pastað fyrr en sósan er að verða tilbúin.

Fjögurra-osta-sósa

  • 2 ½ dl rjómi
  • 2 dl gráðaostur
  • 2 dl Cheddar-ostur
  • 2 dl Havarti
  • 2 dl Mozzarella-ostur

1. Hellið rjóma í pott og látið hitna áður en osti er hrært saman við hann. Athugið að sósa sem þessi getur innihaldið ýmsa osta og allt eftir því hverjir eru í uppáhaldi. Þessir fjórir eru góðir saman. Líka má leika sér með magnið af hverjum og einum.

2. Myljið gráðaostinn niður, rífið Havarti, Cheddar og mozzarella. Setjið ostinn saman við rjómann í pottinum í nokkrum hlutum og látið bráðna vel. Ef sósan er þunn, bætið þá við osti, ef of þykk, bætið við rjóma. Það gæti verið gott að pipra sósuna aðeins.

3. Meðan á sósugerðinni stendur er gott að láta suðuna koma upp á vatninu og sjóða pastað þegar hún er að verða tilbúin. Þegar pastað er soðið látið þið renna af því, alls ekki setja í sigti og láta það þorna. Veiðið upp úr vatninu með spaða, það er langbest.

4. Smyrjið fallegt ofnfast form með smjöri og setjið pastað í formið. Hellið ostasósunni yfir og flott er að strá smá brauðmylsnu yfir. Setjið í ofn, á 200 gráður, og hitið þar til sósan er farin að bubbla og rétturinn að ná á sig gylltum blæ. Berið réttinn fram heitan og njótið matarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert