Ofureinfaldur kjúklingaréttur sem gerir daginn betri

mbl.is/María Gomez

Kjúklingur er alltaf klassík og þessi uppskrift er ein af þeim sem gera allt betra. Hér er búið að taka kjúklingabringurnar og skera í bita sem síðan eru meðhöndlaðir eftir kúnstarinnar reglum. Við ráðleggjum ykkur að fjárfesta í panko raspi þar sem það er fáránlega gott og gerir allan mat töluvert betri. Það er því fjárfesting sem borgar sig eins og þið munuð sannreyna á þessum rétt.

Það er María Gomez á paz.is sem á heiðurinn að þessari snilld en hægt er að heimsækja matarbloggið hennar HÉR.

Ofureinfaldar Kjúklingabollur í hunangshvítlauksssóu

Þessi uppskrift er akkurat af þeirri tegund sem ég elska hvað mest. Ofureinföld, með örfáum hráefnum, en alveg hrikalega góð. Þessi réttur er eins og hann hafi verið eldaður á besta kínastað og það tekur ekki nema rúman hálftíma að galdra hann fram.

Í bollurnar þarf

Fyrir 4 

  • 3 kjúklingabringur

  • 1 bolli Panko rasp (fæst í stærri matvöruverslunum) Hér er mikilvægt að notast við Panko rasp en ekki venjulegt.

  • 2 egg

  • salt

Aðferð

  1. Hitið ofninn á 200-210 C°blástur

  2. Sjóðið svo hvít hrísgrjón til að hafa með réttinum

  3. Skerið bringurnar í litla bita á stærð við tening

  4. Hrærið eggin og setjið í skál og saltið ögn (1/4 tsk c.a)

  5. Setjið Panko rasp á annan disk eða skál (Best að setja bara 1/3 af bollanum fyrst og bæta svo á)

  6. Veltið svo bringubitunum fyrst upp úr egginu og hristið umframegg af

  7. Veltið svo næst úr Panko raspinum og setjið bitana á ofnplötu með bökunarpappír

  8. Setjið í ofninn í c.a 15 mínútur og gerið sósuna á meðan

Í sósuna þarf

  • 1/3 bolli hunang

  • 2 msk soja sósa

  • 1 msk Sriracha chili sósa (Fékk mína í Fjarðarkaup)

  • 1/2 tsk hvítlauksduft

  • 1/3 bolli heitt vatn

  • 1 msk kartöflumjöl

Aðferð

  1. setjið í lítinn pott við miðlungshita hunang, sojasósu, Srirachasósu og hvítlauksduft þar til fer að sjóða

  2. Setjið þá kartöflumjölið út í og hrærið mjög vel á meðan svo verði ekki kekkjótt

  3. Bætið svo heita vatninu strax út í og hrærið vel þar til verður orðið þykkt

  4. Hellið svo sósunni yfir heitar bollurnar, nýkomnar úr ofninum, og hrærið varlega saman með höndunum svo allar bollurnar verði þaktar í sósu

  5. Setjið svo bollurnar ofan á grjóninn og skreytið með sesamfræjum og vorlauk, en það combó gefur réttinum afar gott bragð

mbl.is/María Gomez
mbl.is/María Gomez
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert