Ofureinföld ísterta

Gera má ístertu í næstum hvaða íláti sem er.
Gera má ístertu í næstum hvaða íláti sem er. mbl.is/epicurious

Þegar þörfin til þess að búa til eftirrétt án þess að kveikja á bakarofninum knýr að dyrum er eina ráðið að búa til ístertu. Hana er hægt að gera í hvaða íláti sem er, kökumóti, brauðformi, eða gömlu ísboxi jafnvel. Gaman að dúlla í þessu með krökkunum og fullkominn eftirréttur að sumri til. Hér eru leiðbeiningar í tíu skrefum, hvernig búa skal til ljúffenga ístertu úr rjóma, berjum og smákökum eða kexi. 

1. Veljið ílát til að búa tertuna til í

Áður en ráðist er í framkvæmdir við að búa til ístertu þarf að komast að því hversu mikið magn dallurinn sem valinn er til að búa tertuna til í tekur. Til að gera þetta er best að fylla ílátið eða formið sem nota skal með vatni. Hellið svo vatninu í stóra mælikönnu. Til dæmis myndi 22 sentimetra mót sem er um það bil 7 sentimetrar að hæð rúma 12 bolla af vatni.

2. Klæðið að innan með plastfilmu

Þurrkið ílátið vel og klæðið það svo að innan með plastfilmu. Við mælum með því að leggja tvöfalda filmu í kross innan í skálina og leyfa nægri plastfilmu að hanga niður með hliðunum að utanverðri skálinni.

3. Þeytið rjóma

Það þarf nægan rjóma til að fylla upp í helming ílátsins. Þar sem rjómi tvöfaldast að umfangi þegar hann er þeyttur er best að byrja með fljótandi rjóma sem myndi fylla upp í ¼ ílátsins. Svo fyrir 12 bolla ílát myndu 6 bollar af þeyttum rjóma duga, sem þýðir þá 3 bollar af fljótandi rjóma til að þeyta. Þeytið rjómann þar til hann verður vel stífur, hrærið svo saman við klípu af salti og smávegis af flórsykri. Smakkið til og bætið við sykri ef þarf. Það má einnig bæta við smávegis af vanillu eða bragðbætandi efnum á borð við möndludropa eða jafnvel romm.

mbl.is/epicurious

4. Undirbúið ávexti

Við viljum nægilegt magn af ávöxtum til að fylla upp í ¼ ílátsins. Svo fyrir 12 bolla ílát þarf 3 bolla af kirsuberjum. Það má nota hvers konar ber, allt eftir smekk, eða jafnvel apríkósur, plómur eða ferskjur skornar í litla bita. Kjarnhreinsið þau ber eða ávöxt sem nota skal og skerið í litla munnbita. Setjið ávextina í skál og kreistið smávegis sítrónusafa yfir. Gott er að hræra nokkrum matskeiðum af góðri berjasultu saman við berin.

mbl.is/epicurious

5. Lag af kexi eða smákökum

Við þurfum nóg kex til að fylla upp í helming mótsins svo fyrir ílát sem rúmar 12 bolla þurfum við 6 bolla af kexi. Hægt er að nota hvaða kex eða smákökur sem er, en gæta þarf þess að þær séu flatar og ekki of þykkar. Ef kexið er of þykkt eða með of miklum hnetum eða berjum í mýkjast þær ekki nægilega vel svo hægt sé að skera í gegnum þær. Byrjum á því að raða kexi í botn mótsins en ekki raða þeim ofan á hverja aðra, brjótið frekar kexið til að þekja botn ílátsins.

mbl.is/epicurious

6. Lag af ávöxtum

Því næst má raða lagi af ávöxtum yfir kexið. Best er að hella því yfir með ausu, en gætið þess að hafa lagið ekki of þykkt og helst ekki láta það ná út í brúnirnar. Við viljum skilja eftir pláss til hliðanna svo að lagið af þeyttum rjóma nái út yfir ávextina til að kakan haldist sem best saman.

mbl.is/epicurious

7. Lag af þeyttum rjóma

Næst kemur lag af þeyttum rjóma, dreifið rjómanum yfir lagið af berjunum eða ávöxtunum sem er rétt svo þykkt að ekki sést lengur í ávextina í gegnum berin. Gott er að setja rjóma niður með hliðum ávaxtanna. Svo má gera þetta koll af kolli, lag af kexi, lag af ávöxtum, lag af rjóma þar til ílátið er fullt. Þá skal enda á lagi af kexi. Takið þá að lokum í endana á plastfilmunni sem hangir út yfir brúnir ílátsins og leggið yfir kökuna svo það sé vel breitt yfir hana.

mbl.is/epicurious

8. Kælið tertuna

Stingið tertunni inn í ísskáp og leyfið henni að dúsa þar í að minnsta kosti 24 klukkustundir. Þarna gerast töfrarnir, rjóminn, ávextirnir og kexið mýkist, blandast saman og stífnar svo hægt er að skera tertuna í sneiðar. En þetta tekur góðan tíma og ekki er hægt að svindla með tímann, verið þolinmóð og leyfið kökunni að taka sig í 24 klukkustundir.

9. Takið kökuna úr forminu

Þegar tertan hefur fengið að sitja í ísskápnum í 24 klukkustundir má taka hana út og ná henni úr forminu. Það er alltaf dálítið stressandi að ná tertu úr formi. Takið plastið ofan af tertunni. Leggið stóran tertudisk ofan á og snúið henni á hvolf. Lyftið ílátinu varlega upp og þá ætti tertan að renna úr forminu og sitja á tertudiskinum. Takið plastfilmuna svo varlega af tertunni.

mbl.is/epicurious

10. Skreytið tertuna og berið á borð

Bera má ístertuna á borð eins og hún er, eða leika sér með hana og skreyta. Hægt er að skera ferska ávexti og leggja ofan á hana, eða þeyttan rjóma. Látið hugmyndaflugið ráða ferð. En gætið þess að bera tertuna fljótlega á borð og njóta hennar strax, ístertur eiga það jú til að bráðna fljótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert