Auðveldasta lasagna í heimi

mbl.is/Maria Gomez

Þetta lasagna er af mörgum talið besta lasagna í heimi. Það fullyrðir að minnsta kosti höfundur þess, María Gomez á Paz.is, og biður fólk jafnframt um að láta lengdina á hráefnalistanum ekki hræða þar sem þetta sé flest allt eitthvað sem þegar er til í eldhússkápunum. 

„Ég get ekki annað en mælt með því að þið prófið þessa uppskrift mína og þið munuð sannfærast. Það þarf ekki einu sinni að skera niður hráefnin. Og það sem er best er að það er búið til frá grunni úr 100% fersku hráefni og grænmeti. Engin krukkusósa né óhollusta. Það er algjört möst að eiga parmesan til að raspa yfir og bera fram með góðu salati og jafnvel hvítlauksbrauði.“ 

Auðveldasta lasagna í heimi

  • 1 græn paprika
  • 1 laukur
  • 4 hvítlauksgeirar eða 1 geiralaus hvítlaukur
  • 1 dós af niðursoðnum tómötum (chopped tomatoes)
  • 1 lítil dós tómatpúrra
  • 1 msk. agavesíróp eða önnur sæta (hunang, hlynsíróp, sykur eða hvaða sæta sem þið kjósið)
  • 1 tsk. af þurrkuðum kryddjurtum eins og basil, oregano, timian og annað sem þið kjósið, allt frjálst. (Ég nota allt þetta saman).
  • 1 tsk. af hvítlauksdufti (ekki hvítlaukssalt)
  • 1 tsk. af laukdufti
  • 1 tsk. paprikuduft
  • 1 nautakjötsteningur
  • Múskat (val en gefur fáránlega gott bragð)
  • 500 gr. nautahakk
  • stór dós kotasæla
  • 1 poki rifinn ostur (mozzarella er bestur)
  • Lasagnaplötur að eigin vali úr kassa. Ég nota bara þær sem mér finnst bestar hverju sinni. Stundum með eggjum, stundum heilhveiti eða spelt og oft hefðbundnar.
  • 1 dós sýrður rjómi með graslauk (þessi í græna boxinu)

Aðferð

  1. Byrjið á að steikja hakkið á pönnu og saltið og piprið. Ef þið viljið getið þið líka kryddað það með örlítið af oregano, timian og papríkudufti. Meðan hakkið er á pönnunni byrjið þá á sósunni.
  2. Afhýðið lauk og fræhreinsið papríkuna og skerið bæði lauk og papriku í tvennt.
  3. Setjið næst allt eftirfarandi í blandara: Lauk, papríku, hvítlauk, dósatómata, púrru, 1 tsk. af öllu þessu, oregano, timian, paprikudufti, laukdufti og hvítlauksdufti. 1 nautasoðstening og 1 msk. agave/sætu.
  4. Setjið klípu af salti og pipar og maukið í drasl.
  5. Hellið svo sósunni úr blandaranum, út á hakkið, og leyfið því að malla saman í 10 mínútur á pönnunni.
  6. Næst er svo byrjað að raða upp í eldfasta mótið
  7. Setjið hakksósu neðst í botninn, í þunnu lagi, og svo þurrar lasagnaplötur ofan á hakkið.
  8. Smyrjið svo þunnu kotasælulagi ofan á plöturnar og stráið smá múskati yfir.
  9. Setjið svo aftur hakksósu ofan á kotasæluna, plötur ofan á og svo kotasælu og múskat.
  10. Svo aftur hakk, plötur, kotasælu og múskat.
  11. Mér finnst gott að hafa 3 lög af plötum.
  12. Setjið svo ofan á síðasta lagið restina af hakkinu og setjið svo sýrða rjómann yfir hakkið.
  13. Mér finnst best að hræra hann aðeins upp í dósinni og smyrja honum yfir allt hakkið í þunnu lagi. það er allt í lagi þótt hann blandist inn í hakkið.
  14. Að lokum er svo rifna ostinum stráð yfir og gott er að setja smá paprikuduft yfir ostinn.
  15. Eldið á 200 C°undirhita eða blæstri í 35 mínútur.
  16. (Ef þið notið undirhitann eru minni líkur á að osturinn brenni. Ég nota báðar aðferðirnar en osturinn verður dekkri ef notaður er blástur og okkur finnst það vera gott).
  17. Það er algjört möst að eiga parmesan til að raspa yfir og bera fram með góðu salati og jafnvel hvítlauksbrauði. Ég er handviss um að ef þið gerið þessa uppskrift einu sinni eigið þið eftir að koma til með að gera hana aftur og aftur og aftur.
  18. En verði ykkur að góðu elskurnar.
mbl.is/Maria Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert