Plankasteik

Svava keypti sér steikarplanka í Stokkhólmi og segir þá vera …
Svava keypti sér steikarplanka í Stokkhólmi og segir þá vera hina mestu snilld. ljufmeti.com

„Mig hefur lengi langað að eignast steikarplanka en ekki látið verða af því að kaupa þá, einfaldlega vegna þess að ég hef ekki vitað hvar þeir fást. Þegar við síðan vorum í Stokkhólmi um daginn datt ég niður á svo fína planka að við slógum til og keyptum þá. Um helgina vígðum við plankana með nautasteik, bernaise, kartöflumús og góðu rauðvíni í glasinu. Þvílík veisla,“ segir Svava Gunnarsdóttir á matarbloggi sínu.

„Þar sem Gunnar var að keppa í fótboltanum um kvöldið komum við seint heim. Við gerðum okkur því einfalt fyrir og keyptum tilbúna bernaise-sósu á Askinum fyrr um daginn. Mér þykir sósan þar alveg æðislega góð og hef stundum rennt þar við og keypt hana þegar ég vil einfalda matargerðina. Annars er uppskriftin sem ég nota þegar ég geri sósuna sjálf hér. Kartöflumúsina gerði ég áður en við fórum á leikinn og því tók skamma stund að klára réttinn eftir að við komum heim.

Nú veit ég ekki hvar steikarplankar fást hér heima en dettur helst í hug Kokka, Duka eða jafnvel Byggt og búið eða Byko. Ef einhver veit hvar þeir fást þá eru allar ábendingar vel þegnar. Ég mun uppfæra færsluna með upplýsingunum ef niðurstaða fæst í málið!“

4 steikarplankar
4 tómatar
salt
600 g nautakjöt
salt og pipar
1 búnt ferskur grænn aspas
bernaise-sósa (keypt tilbúin eða heimagerð)

Kartöflumús

1 kg kartöflur
2 dl rjómi eða mjólk
salt og pipar
Afhýðið kartöflurnar, skerið þær í bita og sjóðið í söltu vatni þar til þær eru orðnar mjúkar (það tekur um 10-15 mínútur). Hellið vatninu frá og notið kartöflupressu til að pressa kartöflurnar. Hrærið mjólk eða rjóma saman við og smakkið til með salti og pipar. Kartöflumúsin má vera örlítið blaut í sér svo hægt sé að sprauta henni á plankann og hún verði ekki of þurr í ofninum.

Skerið toppinn af tómötunum þannig að um tveir þriðju standa eftir. Setjið tómatana í dældina á plankanum, saltið sárið og setjið í 200° heitann ofn (225° ef það er ekki blástursofn) í um 20 mínútur.

Á meðan tómatarnir eru í ofninum eru kjötið og aspasinn undirbúið. Skerið endann af stilknum af aspasnum. Setjið vatn í pott og látið suðuna koma upp. Saltið vatnið og leggið aspasinn í, látið sjóða í 2-3 mínútur. Skerið kjötið í passlegar sneiðar og steikið á háum hita á grillpönnu. Saltið og piprið.

Þegar tómatarnir hafa verið í ofninum í um 20 mínútur eru þeir teknir út. Sprautið kartöflumúsinni fyrir innan röndina á plankanum. Leggið kjötið fyrir innan kartöflumúsina og aspasinn við hliðina á kjötinu. Hækkið hitann á ofninum í 250° (275° ef það er ekki blástursofn) og setjið plankana inn í ofninn i um 12 mínútur. Setjið bernaise-sósu yfir og berið strax fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert