Verður forsetaframbjóðandi í nágrenni við þig?

Það er nóg um að vera hjá frambjóðendum á fimmtudaginn.
Það er nóg um að vera hjá frambjóðendum á fimmtudaginn. Samsett mynd

Kosningabaráttan er komin á flug og á sumardaginn fyrsta á fimmtudag verða frambjóðendur á víð og dreif að hitta kjósendur.

mbl.is hafði samband við kosningateymi frambjóðenda og spurði einfaldlega hvort að einhver dagskrá væri hjá frambjóðendum á sumardaginn fyrsta.

Svörin létu ekki á sér standa, en nóg er um að vera hjá frambjóðendum og verða sumir með þjóðþekkta einstaklinga með sér á framboðsfundum.

Baldur opnar kosningamiðstöð

Baldur Þórhallsson hafði hugsað sér að byrja daginn á því að kíkja í Garðyrkjuskólinn á Reykjum – þar sem fram fer árleg hátíðardagskrá skólans. Þá stendur til að stoppa í hádegismat á Selfossi í mathöllinni á leið Baldurs og eiginmanns hans, Felix Bergssonar, í fermingarveislu á Hellu. Eftir það verður formleg opnun kosningamiðstöðvar hans.

„Eftir það munu Baldur og Felix bruna í bæinn til að opna kosningamiðstöð sína með formlegum hætti, en hún verður opnuð með pompi og prakt, þar sem fjöldi listamanna hafa boðað komu sína, að Grensásvegi 16.

Gleðin hefst klukkan 16.00 en boðið verður upp á veitingar og ýmis skemmtiatriði. Meðal þess listafólks sem fram koma eru Reykjavíkurdætur, Salka Sól, Gunni og Felix og fleiri góðir gestir,“ segir í svari frá framboðinu.

Bubbi spilar á sumarhátið hjá Katrínu

En það er ekki bara Baldur sem verður með tónlistaratriði á sínum snærum á fimmtudaginn því Katrín Jakobsdóttir mun blása til sumarhátíðar og stuðningsfundar þar sem meðal annars Bubbi Morthens stígur á stokk. Sumarhátíðin verður á Nasa við Austurvöll á milli klukkan 15 og 17.

„Bubbi, Gugusar, Jakob Birgisson og Gerður Kristný koma fram og Katrín flytur erindi. Unnur Ösp verður kynnir og nóg verður af kaffi og veitingum – við vonumst til að sjá sem flest,“ segir í svari framboðs Katrínar.

Halla Tómasdóttir á Egilsstöðum

Halla Tómasdóttir er eini frambjóðandinn sem mbl.is veit af sem verður með viðburð á landsbyggðinni á sumardaginn fyrsta.

Hún boðar íbúa á Egilsstöðum og nágrenni velkomna á opinn fund með sér á Tehúsinu klukkan 14 á fimmtudaginn.

Jón Gnarr kíkir á skáta

Jón Gnarr er ekki búinn að festa niður nákvæmar tímasetningar og staðsetningar fyrir sumardaginn fyrsta, en þó er það ákveðið að Jón og fjölskylda munu kíkja á viðburði á vegum skáta og líta við á Hönnunarmars.

Halla Hrund verður á kosningamiðstöðinni

Á sumardaginn fyrsta ætlar Halla Hrund Logadóttir að taka á móti gestum í kosningamiðstöð sinni að Nóatúni 17.

Að sögn framboðsins þá er aldrei að vita nema hún kíki á aðra dagskrá sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu bjóða upp á.

Arnar verður á kosningamiðstöðinni

Arnar Þór Jónsson eyðir fyrri part dagsins með vinum og fjölskyldu og opnar svo kosningamiðstöð sína klukkan 14 að Ármúla 15.

Ásdís Rán verður í miðbænum

Ásdís Rán verður á ferð um miðbæ Reykjavíkur á Hönnunarmars og hyggst koma við á sýningum og viðburðum. Þá kíkir hún jafnvel við í Grasagarðinum á Barnamenningarhátíð.

Þá tekur Ásdís það fram að hægt er að bóka hana í sérstakar heimsóknir með því að senda framboðinu tölvupóst.

Helga Þórisdóttir.
Helga Þórisdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Helga ferðast um Norðurland

Helga Þórisdóttir verður á ferðalagi um Norðurland á sumardaginn fyrsta. Hún er ekki með skipulagðan viðburð á sumardaginn fyrsta en hlakkar til að spóka sig um með heimafólki, heimsækja vini, vandamenn og stuðningsfólk, að því er kemur fram í svari framboðsins.

„Seinnipart dagsins mun hún svo rúlla aftur suður, fá sér kaffi og vöfflur á sveitabæ og mjög líklega klappa lambi eins og er svo vinsælt hjá frambjóðendum enda mikil náttúrukona hún Helga.“

Sigríður Hrund Pétursdóttir.
Sigríður Hrund Pétursdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður með fjölskyldunni

Sigríður Hrund Pétursdóttir verður með fjölskyldu sinni á sumardaginn fyrsta.

„Það er hefð hjá þeim að vera saman þann dag, gefa sumargjafir og halda upp á tímamót. Einnig eru nokkur fermingarbörn sem þarf að samgleðjast á þessum góða degi,“ segir i svari framboðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert