„Ætlast ekki til þess að neinn kjósi mig“

„Ég ætlast ekki til þess að neinn kjósi mig og …
„Ég ætlast ekki til þess að neinn kjósi mig og ég ætla ekki að biðja um atkvæði,“ segir Viktor í samtali við mbl.is Samsett mynd

For­setafram­bjóðand­ann Vikt­or Trausta­son dreymir ekki um að verða forseti, það væri hrokafullt. Hann ætlar hvorki að biðja nokkurn um atkvæði né ætlast Viktor til þess að nokkur kjósi sig. Hann vill láta stefnumálin tala, en þau byggja á því að hann þurfi að taka sem fæstar geðþóttaákvarðanir í embætti.

Lands­kjör­stjórn úr­sk­urðaði í dag fram­boðs Vikt­ors gilt eftir að hann skilaði aftur meðmælalista til kjörstjórnarinnar í dag. Hann kveðst ánægður með niðurstöðu landskjörstjórnar en segist ekki ætla í neina sérstaka kosningabaráttu.

„Ég ætla ekki í neina baráttu og ætla ekki að berjast við neinn,“ segir Viktor í samtali við mbl.is. „En mig langar til að tala um ákveðin málefni og er búinn að sníða þrjú skýr og markviss stefnumál í kringum þau. Og ef fólki líst vel á það þá líst því vel á það, ef ekki þá ekki.“

Viktor skilaði undirskriftum á sumardaginn fyrsta en meðmælalistinn var úrskurðaður …
Viktor skilaði undirskriftum á sumardaginn fyrsta en meðmælalistinn var úrskurðaður ógildur. Nú er framboðið hans aftur á móti orðið gilt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engir þingmenn verði ráðherrar

„Enga þingmenn sem ráðherra“ er slagorð framboðsins og helsta stefnumál Viktors. Ef Viktor væri forseti þyrftu ráðherrar að segja af sér þingmennsku þegar þeir taka við ráðherraembætti. Þannig myndi hann tryggja þrískiptingu ríkisvaldsins. 

Annað stefnumál Viktors felst í því að forseti skrifi ekki undir ef frumvarp sem er samþykkt er á Alþingi ef því mótmælt af að minnsta kosti 10% kosningabærra manna, t.d. í gegnum undirskriftasöfnun. Þá sé frumvarpið tekið til þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Þriðja stefnumál Viktors, sem hann kallar uppáhaldið sitt, snýst um „týndu þingsætin“. Hann tekur fram að það sé tilvísun í Týndu kynslóðina.  „Það er hópur fólks [...] sem fær ekki fulltrúa á Alþingi [þrátt fyrir að kjósa]. Síðan eru frambjóðendur í öðrum listum sem setjast í sætin þeirra og láta eins og ekkert sé. Og segjast meira að segja vera að tala máli meirihlutans,“ útskýrir Viktor.

Hann vill koma í veg fyrir þetta með því að láta þann fjölda þingsæta sitja auðan sem samsvara samanlögðum fjölda auðra atkvæða, ógildra atkvæða og atkvæða til flokka sem hlutu færri en 5%.

„Það góða við stefnumálin sem ég hef sniðið byggja ekki á því að ég þurfi að taka geðþóttaákvarðanir. Ég er bara að bjóða fram ákveðna reglu og segja fyrirfram hvað ég kem til með að gera í hvaða aðstæðum. Þá er svo sem ekkert mikið sem ég þarf að standa í,“ segir hann og tekur fram að hann sé ekki að „finna upp hjólið.“

Myndi ekkert endilega setjast að á Bessastöðum

Ertu tilbúinn að setjast að á Bessastöðum og vera foresti?

„Ég er ekki á það háum hesti að ég sé eitthvað að fara að ímynda mér eða dagdreyma um að vera forseti og setjast að á Bessastöðum,“ svarar hann og bætir við:

„Akkúrat núna vil ég bara tala um þessi stefnumál og ég er búinn að segja hvað ég vilji gera með þau. Hvort ég flytji inn á Bessastaði eða ekki, ég held að það sé valfrjálst.“

Hrokafullt að vera alvara um að gerast forseti

Er þér alvara um að vera forseti?

„Ég held að það gæti engum verið alvara um það. Það hljómar alveg frekar hrokafullt. Mig langar bara að það sé möguleiki í boði og ef fólki líst vel á hann er hægt að kjósa hann.“

Heldurðu að þú komir til með að finna mikinn meðbyr frá þjóðinni?

„Ég ætla ekki að gera mér neinar væntingar um það. Öðru fólki finnst bara það sem því finnst og ég sýni fullan skilning að við höfum öll mismunandi skoðanir. Eina sem ég vona er að á kjördag fylgi fólk sinni eigin sannfæringu þegar það er í kjörklefanum. Ég ætlast ekki til þess að neinn kjósi mig og ég ætla ekki að biðja um atkvæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert