Tvær rannsóknir auka álagið

Frá vettvangi rannsóknar.
Frá vettvangi rannsóknar. mbl.is/Sigurður Sigurgeirsson

Rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á andláti í fjölbýlishúsi hefur ekki teljandi áhrif á rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á andláti í sumarhúsi í Kiðjabergi, að sögn Jón Gunnars Þórhallssonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi.

Bæði embætti njóta aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við rannsóknirnar.

Jón Gunnar viðurkennir þó að óneitanlega auki það álagið á tæknideild og Landspítala að tvö hugsanleg manndrápsmál hafi komið á borð lögreglu embættanna með stuttu millibili.

Tveir í gæsluvarðhaldi

Lögreglunni á Suðurlandi barst tilkynning um meðvitundarlausan karlmann í sumarhúsi skömmu fyrir klukkan 14 á laugardag í uppsveitum Árnessýslu. Áverkar benda til þess að manninum hafi verið ráðinn bani.

Hinn látni er karlmaður á fertugsaldri frá Litháen.

Fjórir samlandar hans voru handteknir og sæta tveir enn gæsluvarðhaldi til 30. apríl á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Eru mennirnir á miðjum aldri.

Gefur ekki upp hvort játning liggur fyrir

Lögregla rannsakar nú atburðarásina og þá meðal annars hvort önnur lögbrot hafi átt sér stað.

Jón Gunnar kvaðst ekki geta veitt upplýsingar um hvaða lögbrot væru til rannsóknar eða hvort játning lægi fyrir í málinu. Kvaðst hann jafnframt ekki geta gefið upplýsingar um hugsanlegt morðvopn eða áverkana sem hinn látni hlaut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert