Áverkar bentu til manndráps

Jón Gunnar Þórhallsson fer með rannsókn á manndrápi í sumarbústað …
Jón Gunnar Þórhallsson fer með rannsókn á manndrápi í sumarbústað í Kiðjabergi. Samsett mynd

Lögreglan segir að áverkar á karlmanni á fertugsaldri, sem er frá Litháen, hafi leitt til grunsemda um að andlát hans í sumarbústað í Kiðjabergi á Suðurlandi hafi borið að með saknæmum hætti.

Fjórir hafa verið handteknir vegna málsins og hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Tveir fram á miðvikudag og tveir í átta daga gæsluvarðhald sem lýkur 30. apríl. Þrír mannanna hafa kært gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Landsréttar en einn ekki.

Tjáir sig ekki um játningu 

Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá hjá lögreglunni á Suðurlandi, tjáir sig ekki um það hvort játning liggur fyrir í málinu eða ekki.

„Það er eitthvað sem ég get ekki tjáð mig um,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Jón Gunnar segir að upphaflega hafi borist tilkynning um meðvitundarlausan mann. Áverkar á manninum bentu hins vegar til þess að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.

„Eitt af því sem benti til þess að um manndráp væri að ræða eru áverkar á hinum látna.“ 

Vettvangsrannsókn stendur enn yfir 

Hann segir eitt af því sem sé til rannsóknar sé hvort ölvun hafi átt hlut í máli en  vettvangsrannsókn er ekki lokið að sögn Jón Gunnars.

Á vef RÚV segir að sakborningarnir hafi verið að byggja bústað í Kiðjabergi. Við hlið lóðarinnar var leigður bústaður undir starfsfólk þar sem það hafði afdrep á meðan smíði bústaðarins stóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert