Hrint í jörðina og höfuðkúpubrotnaði

Maðurinn er grunaður um að hafa hrint öðrum manni með …
Maðurinn er grunaður um að hafa hrint öðrum manni með þeim afleiðingum að hann skall með höfuði í jörðina. mbl.is/Þór

Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni sem grunaður er um stórfellda líkamsárás aðfaranótt sunnudagsins 10. október 2021 fyrir utan Síðumúla 37, sem hýsir meðal annars sal Bridgesambands Íslands.

Í ákærunni er maðurinn sagður hafa hrint öðrum einstaklingi með báðum höndum með þeim afleiðingum að hann féll og skall með höfuðið í jörðina og hlaut höfuðkúpubrot á ennisbeini, marblæðingar á framheila og gagnaugageira.

Er þess krafist að sá ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá krefst brotaþoli miskabóta að fjárhæð 4.000.000 króna auk vaxta, þjáningarbóta að fjárhæð 233.946 króna með dráttarvöxtum og málskostnaðar úr hendi ákærða.

Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða lögmannskostnað brotaþola við að koma bótakröfunni á framfæri og vegna hagsmunagæslu við meðferð málsins fyrir dómi skv. málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við meðferð málsins eða samkvæmt mati dómsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka