Grindavíkurvöllur vinsæll meðal ferðamanna

Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur, segir völl þeirra Grindvíkinga …
Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur, segir völl þeirra Grindvíkinga koma vel undan vetri þrátt fyrir ýmis ósköp og lítur björtum augum til litríks golfsumars á Suðurnesjum. Ljósmynd/Aðsend

„Staðan á vellinum er bara mjög góð þegar á heildina er litið,“ segir Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur, í samtali við mbl.is um ástand golfvallarins þar í bænum sem – eins og fleiri svæði þar – hefur mátt þola ýmislegt í vetur.

„Auðvitað urðu einhverjar skemmdir á vellinum í jarðskjálftunum í haust en það er ekkert sem er óyfirstíganlegt og við bara lögum það sem við þurfum að laga. Völlurinn sjálfur kemur mjög vel undan vetri,“ segir framkvæmdastjórinn.

Hann segir völlinn á sprungusvæði og ævafornar sprungur liggi beggja vegna svæðisins sem fjöldi Grindvíkinga og gestir þeirra nýta til að slá golfkúlur sínar yfir sumarmánuðina. „Það er svo sem ekkert nýtt, þetta er bara framhald af gömlu sprungunum, það fór einn teigur hjá okkur og við gerum bara nýjan teig einhvers staðar rétt hjá, það kemur ekki til með að hafa nein áhrif á leik á vellinum,“ útskýrir Helgi.

Völlurinn skartar sínu fegursta í einmuna náttúrufegurð Reykjanesskagans.
Völlurinn skartar sínu fegursta í einmuna náttúrufegurð Reykjanesskagans. Ljósmynd/Aðsend

Mikil fjölgun félagsmanna og hringja

Golfklúbburinn telur nú um 350 félaga og segir framkvæmdastjórinn um 20.000 hringi hafa verið leikna á vellinum í fyrrasumar sem sé gríðarleg aukning frá árunum áður, en árið 2019 voru hringirnir á milli átta og níu þúsund. „Félagsmönnum og leiknum hringjum hefur fjölgað mikið og við vonumst til að sú þróun haldi áfram, það á eftir að skýrast, við erum ekki komin með endanlegt grænt ljós á opnun vallarins sem þó hefur almennt verið komið á þessum árstíma,“ segir Helgi.

Hann segir það græna ljós koma frá bæjaryfirvöldum og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Jarðskima þurfi völlinn og stjórn klúbbsins vilji hafa vaðið fyrir neðan sig þegar að því kemur að hleypa golfþyrstum Grindvíkingum inn á svæðið. „Ég er búinn að keyra völlinn fram og til baka og grandskoða hann og það er ekkert sem er að trufla okkur stórfenglega, völlurinn lítur mjög vel út, töluvert betur en í fyrravor til dæmis sem var mjög erfitt vor,“ segir Helgi frá.

„Á morgnana og kvöldin voru túnin svo græn að þau …
„Á morgnana og kvöldin voru túnin svo græn að þau voru rauð og á daginn var víðáttan svo blá að hún var græn,“ lýsir Laxness fagurri náttúrunni í umhverfi Steinars Steinssonar í Hlíðum undir Steinahlíðum í Paradísarheimt og mætti segja að golfvöllur Grindvíkinga nálgist jafnvel þá mögnuðu lýsingu. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir ásókn í golfíþróttina hafa aukist mjög á nýliðnum árum og þá ekki aðeins hvað Íslendinga áhræri. „Það hefur verið rosaleg fjölgun erlendra gesta sem eru að koma til landsins gagngert í skipulagðar ferðir til að spila golf, þar er aukningin gríðarleg og mikil tækifæri fyrir íslenskt golf að markaðssetja sig í framtíðinni þannig að við fáum erlenda gesti,“ segir hann.

Algjör sprenging í fyrra

Eru það þá íslenskir golfklúbbar sem hafa veg og vanda af því að taka á móti gestum og koma þeim inn í málin hér?

„Já já, líka, en það er náttúrulega allur gangur á því, þetta getur verið gegnum íslenska golfklúbba en mörg ferðaþjónustufyrirtæki hafa líka beint samband við okkur og hópar sem eru að skipuleggja ferðir sjálfir rétt eins og við gerum þegar við förum í golfferðir til Spánar,“ svarar Helgi og segir fjölda fyrirspurna berast Golfklúbbi Grindavíkur frá kylfingahópum erlendis.

„Í fyrra varð algjör sprenging og fjöldinn ótrúlegur af erlendum gestum sem hingað komu. Íslenskt golf hefur gjörbreyst síðustu tuttugu ár og þá fyrst og fremst gæði vallanna sem eru orðin mjög mikil. Ég er búinn að vera í golfi síðan ég var fimm ára og er tæplega fimmtugur núna, ég man alveg eftir því hvernig vellirnir voru hérna í gamla daga og breytingin er ólýsanleg. Nú eru menn orðnir menntaðir í þessum fræðum, svo sem í sambandi við gras á völlunum, og fullt af fólki sem hægt er að sækja þekkingu til sem skilar sér svo í betri golfvöllum og betri umhirðu um vellina sem þýðir að fólk vill koma hingað til að spila golf. Þannig væri það ekki ef vellirnir væru lélegir,“ útskýrir framkvæmdastjórinn af innlifun og smitandi áhuga.

„Sól tér sortna/sígr fold í mar.“ Sólargeislar ryðja sér leið …
„Sól tér sortna/sígr fold í mar.“ Sólargeislar ryðja sér leið gegnum gosmökkinn. Ljósmynd/Aðsend

Nefnir Helgi Dan Steinsson framkvæmdastjóri að lokum sérstaklega velli og klúbba á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, í Vestmannaeyjum, á Akranesi og síðast en ekki síst Akureyri sem dragi til sín fjölda erlendra gesta með góðri markaðssetningu og aðstöðu. Þar sé sannarlega margt breytt frá því í árdaga golfs á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka