Milduðu dóm vegna kókaínsmygls í niðursuðudósum

Maðurinn kom með efnin í flugi frá Belgíu.
Maðurinn kom með efnin í flugi frá Belgíu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur hefur mildað dóm Héraðsdóms Reykjaness yfir frönskum karlmanni sem var fundinn sekur um að hafa flutt rúmlega tvö kíló af kókaíni til landsins í september í fyrra.

Taldi Landsréttur hæfilegan dóm yfir manninum vera tvö og hálft ár, en áður hafði héraðsdómur dæmt hann í þriggja ára fangelsi.

Í dómi Landsréttar er vísað til ungs aldurs mannsins, Maxence Paul Daniel Johann­es, en hann er fæddur árið 2002. Einnig að hann hafi játað brot sitt og verið samvinnufús við lögreglu.

Johannes var á leið frá Brus­sel í Belg­íu til Kefla­vík­ur og faldi efn­in í fjór­um niðursuðudós­um í far­ang­ur­stösku sinni.

Í dómi héraðsdóms horfði það honum til refsiþyng­ing­ar hversu mikið magn efn­anna var og hversu sterkt það var, en styrk­leiki kókaíns­ins var 77-84%.

Ríkinu var gert að greiða allan áfrýjunarkostnað, samtals 645 þúsund, en ákæruvaldið fór fram á þyngingu á dómi héraðsdóms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert