Matvöruverð hækkað um 0,3% frá undirritun samninga

Verð á grænmeti á og ávöxtum hækkar mest að undanskildu …
Verð á grænmeti á og ávöxtum hækkar mest að undanskildu snakki og súkkulaði. mbl.is/Jónas Erlendsson

Frá undirritun kjarasamninga í byrjun mars hefur verðlag í matvöruverslunum hækkað um 0,29%, samkvæmt verðlagseftirliti Alþýðusambands Íslands (ASÍ).

Jafngildir það um 3,8% verðlagshækkun á ársgrundvelli.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá verðlagseftirliti ASÍ.

Hækkar mest í Kjörbúðinni

Fram kemur að af stærri verslunum þá hafi verðlag hækkað mest í Bónus eða um 0,48% á sama tíma og það hækkaði minnst í Krónunni, eða um 0,08%. Í Nettó hækkaði verðlag um 0,40% og í Hagkaup um 0,17%.

Verð hækkar mest í Kjörbúðinni (0,71%) og Krambúðinni (0,52%) en lækkar í 10-11 (0,13%).

Þyngst vega hækkanir á grænmeti í Bónus, Nettó og Hagkaup en einnig mælast einhverjar verðlagshækkanir á snakki og súkkulaði.

Innlendar vörur hækkað minna en erlendar

Verð á innlendri vöru hækkaði um 0,23% á milli mánaða en verð á erlendum vörum um  0,39%.

„Mæling Verðlagseftirlitsins byggir á yfir tuttugu þúsund verðsamanburðum í 11 verslunum. Alls höfðu verð hækkað í um 1.400 tilfellum en lækkað í um 600 tilfellum. Tíðastar voru hækkanirnar í Krambúðinni (14% af skoðuðum vörum) og Bónus (9,7%) og fátíðastar í 10-11 (1,6%) og Extra (0,5%). Lækkanir voru tíðastar í Kjörbúðinni (4,7%) og Krónunni (4,8%) og fátíðastar í Fjarðarkaupum (1,3%), 10-11 (1,3%) og Extra (0,6%),“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að frá janúar hafi verðlag á grænmeti, ávöxtum og hnetum, bæði innlendum og erlendum, hækkað um 2,2%. Verðlag á íslensku súkkulaði hefur almennt hækkað um 5,4%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert