Áfengisástand leysir menn ekki undan refsiábyrgð

Maðurinn sendi konunni skilaboð þar sem hann hótaði henni ofbeldi.
Maðurinn sendi konunni skilaboð þar sem hann hótaði henni ofbeldi. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt mann fyrir hótanir og endurtekin brot gegn nálgunarbanni en hann var sýknaður af broti á barnaverndarlögum. Brotin áttu sér stað árið 2022. Héraðsdómur segir að áfengisástand leysi menn ekki undan refsiábyrgð

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákærði manninn, sem er á sextugsaldri, í apríl og er ákæran í þremur liðum. 

Hótaði ofbeldi

Í þeim fyrsta er hann ákærður fyrir hótanir sem hann sendi konu í gegnum sms-skilaboð. Þar sem hann skrifaði m.a.:

  • „A ég ætla að lemja þig svo mikið þú ert bara að reyna að láta mér líða illa“
  • „Trúðu mér ég skal stúta þér þú ert ógeðsleg“
  • „Vá hvað ég ætla að berja þig auminginn þinn fyrir að fara svona ílla með mig“

Hann hringdi enn fremur í barn þar sem hótaði að lemja fyrrgreinda konu. Hann hótaði einnig konunni og unnusta hennar lífláti og barði fast á bílrúðu bifreiðar sem þau voru í. 

Í öðrum lið ákærunnar, sem hann var sýknaður af, var hann ákærður fyrir brot gegn barnaverndarlögum. 

Í þriðja lið ákærunnar var hann ákærður fyrir brot gegn nálgunarbanni með því að hafa tvívegis árið 2022 sett sig í samband við konuna, en manninum var bannað að veita henni eftirför, nálgast hana á almannafæri eða setja sig í samband við hana með öðrum hætti, svo sem með símhringingum, smáskilaboðum, tölvupósti eða samskiptum í gegnum samfélagsmiðla samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 14. nóvember 2022, sem birt var ákærða þann 15. nóvember 2022, og gilti til 15. maí 2023.

Játaði sök

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll í gær, að maðurinn hafi játaði að hafa sent þau skilaboð sem tilgreind eru í ákæru svo og að hafa hringt í símanúmerið og haft uppi þau orð sem tilgreind eru í öðrum ákærulið kaflans.

Kvað hann það ekki hafa verið ætlun sína að barnið heyrði það sem fram fór og hefði hann jafnvel talið að hann væri sofandi enda hánótt. Maðurinn kvaðst hafa verið ofurölvi þessa nótt og því hefði hann sagt þessa hluti án þess að vita raunverulega ástæðu þess. Hann sæi verulega eftir þessu og vildi hvorki gera konunni né barninu neitt illt. Kvað hann konuna hafa hringt í sig þessa nótt úr síma barnsins og því hefði hann vitað að hún notaði símann líka.

Ákærði lýsti samskiptum sínum við konuna og kvað þau hafa gengið vel fram til ársins 2022 en þá hefðu illindin byrjað. Hann hefði verið verulega ósáttur við að hún væri í sambandi við annan mann og hefði viljað vernda hana fyrir honum. Í dag gengi allt betur og hann væri edrú.

Brotin litin alvarlegum augum

„Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir hótanir og endurtekin brot gegn nálgunarbanni en sýknaður af broti á barnaverndarlögum. Hann hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum og er litið til sakaferils hans hvað þetta varðar við ákvörðun refsingar. Þá er litið til þess að ákærði gekkst við brotum sínum og kvaðst iðrast þeirra. Jafnframt er litið að nokkru til atvika eftir að þetta gerðist og brotaþoli lýsti fyrir dómi, þó svo að hegðun ákærða verði ekki réttlætt vegna þess sem síðar er tilkomið. Horfa framangreind atriði til mildunar.

Á hinn bóginn eru brot ákærða litin alvarlegum augum og horfa tengsl á milli hans og brotaþola til refsiþyngingar. Þá gildir einu þó að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis er brot samkvæmt I. kafla ákæru voru framin en slíkt ástand leysir menn ekki undan refsiábyrgð,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Maðurinn var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða helming 387.000 kr. málsvarnarlauna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert