Ekki orðinn þreyttur á vöfflukaffi

Baldur segir skemmtilega lýðræðisveilsu framundan.
Baldur segir skemmtilega lýðræðisveilsu framundan. Eggert Jóhannesson

„Við erum búnir að vera á ferðinni um landið núna í viku. Við erum búnir að þræða stórhluta Suðurlands og erum komin á Austfirði og við finnum fyrir miklum meðbyr.“

Þetta segir Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi í samtali við mbl.is en hann mældist með mest fylgi frambjóðenda til forsetakosninga í skoðanakönnun Prósent fyrir Morgunblaðið, með 25,8 prósent fylgi.

„Þetta er náttúrulega bara könnun á þessu stigi í kosningabaráttunni og það er ennþá nokkuð í kosningar,“ segir Baldur inntur eftir viðbrögðum við könnuninni. Hann kveðst engu að síður hafa fundið fyrir miklum stuðningi og vilja meðal landans til að ræða kosningamálin. 

Hann leggi sérstaka áherslu á að ræða forsetaembættið sjálft á málefnalegum grunni og kveðst hafa fengið góðar undirtektir við sinni sýn á hvernig forseti Íslands eigi að starfa.

Baldur á kúabúinu á Seljavöllum í Austur-Skaftafellssýslu.
Baldur á kúabúinu á Seljavöllum í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd/Aðsend

Skemmtileg lýðræðisveisla fram undan

Baldur var staddur í Neskaupstað er blaðamaður náði tali af honum og heldur áfram á Reyðarfjörð seinni part dagsins, en hann ferðast nú um landið ásamt föruneyti sínu til að kynna sig fyrir landi og þjóð. 

„Á flestum bæjum erum við með vöfflukaffi og kosningafund og það er víðast hvar fullt út úr dyrum og það er alveg dásamlegt að upplifa þessar góðu viðtökur sem við fáum.“

Spurður hvort hann sé ekkert farinn að þreytast á vöfflunum svarar Baldur neitandi og hlær,  það sé þvert á móti gaman að halda vöfflukaffi í flestum bæjarfélögum og kynnast fólki þar sem og á vinnustöðum, bóndabýlum og stofnunum.

Aðspurður kveðst hann spenntur fyrir áframhaldandi kosningabaráttu og að fá tækifæri til þess að ræða kosningamálefnin við meðframbjóðendur sína. 

„Það er bara skemmtileg lýðræðisveisla fram undan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert