Baldur, Katrín og Jón taka forystu

Samsett mynd

Baldur Þórhallsson prófessor er með mest fylgi þeirra sem gefið hafa kost á sér í forsetakjöri, samkvæmt skoðanakönnun Prósents fyrir Morgunblaðið, sem gerð var dagana 9.-14. apríl.

Baldur er með 25,8% fylgi, en Katrín Jakobsdóttir, fv. forsætisráðherra, kemur fast á hæla hans með 22,1% fylgi.

Þrátt fyrir að þar á milli sé 3,7% munur er hann ekki tölfræðilega marktækur. Vikmörk þeirra beggja eru töluverð, svo mögulegar fylgistölur þeirra skarast nokkuð. Erfitt er því að staðhæfa fullum fetum að annað hvort þeirra hafi orðið hlutskarpast, samkvæmt mælingu Prósents.

Þar á eftir kemur Jón Gnarr, leikari og fv. borgarstjóri, með 16,8% sem er marktækt lægra en hjá þeim Baldri og Katrínu og því óhætt að segja að hann sé þar í 3. sæti. Talsvert þar á eftir kemur Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri í 4. sæti með 10,6%.

Aðrir frambjóðendur fá innan við 5% fylgi, fimm þeirra innan við 1%.

Spurt var um þá sem hafa lýst með skýrum hætti yfir framboði, en rétt er að minna á að framboðsfrestur rennur ekki út fyrr en 26. apríl, svo enn kunna fleiri að koma til sögunnar, þó líkurnar á því fari dvínandi.

Fylgið dreifist mikið

Niðurstöður könnunar Prósents eru ekki óáþekkar fyrri könnunum, sem önnur rannsóknafyrirtæki hafa gert, nema hvað þau Katrín og Baldur hafa haft sætaskipti á toppnum.

Í þeim könnunum var ekki heldur tölfræðilega marktækur munur á fylgi þeirra, svo hæpið er að draga of miklar ályktanir um stöðu eða breytingar á fylgisþróun efstu manna, þó aðferðafræðin sé áþekk.

Það er frekar að það eigi við um frambjóðendur neðar á listanum, að ráða megi í hreyfingu á fylginu, þó það verði fráleitt gert af nokkurri nákvæmni, enda stutt síðan þeir síðustu gáfu sig fram og hófu að safna meðmælendum til þess að geta lagt fram gilt framboð. Þar getur einnig margt breyst, enn geta einhverjir bæst við og aðrir helst úr lestinni.

Af sömu ástæðu er fylgið einnig töluvert dreift á milli frambjóðenda, en búast má við að það breytist eftir því sem líður á kosningabaráttuna.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert