Pólitísk fortíð Katrínar verði henni ekki til framdráttar

Pólitísk fortíð Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, verður henni ekki til framdráttar í komandi forsetakosningum. 

Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur í Dagmálum.

„Spurningin er bara sú, hversu mikið tosar hún [pólitíska fortíðin] niður það fylgi sem Katrín fær eða hefði fengið ef hún hefði ekki verið í þessari stjórn með Sjálfstæðisflokknum,“ segir Ólafur í Dagmálum.

Hafði ekki mikla trú

Ólafur Þ. líkir framboði Katrínar við framboð Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta Íslands, á sínum tíma en þegar hann bauð sig fram árið 1996 hafði hann nýlega látið af formennsku í Alþýðubandalaginu.

Hann viðurkennir að hafa ekki haft mikla trú á framboði nafna síns.

„Sem reyndist rangt hjá mér. Því hann fékk yfir 40% atkvæða,“ segir Ólafur. 

Kveðst stjórnmálafræðingurinn hafa ofmetið pólitíska arfleifð Ólafs Ragnars. Segir hann kjósendur þó vissulega ekki hafa verið búna að gleyma pólitískri fortíð fyrrverandi forsetans þegar þeir stigu inn í kjörklefana. 

„Þeir vissu að hann hefði gert fullt af hlutum í pólitík sem þeim líkaði illa.“

Aðrir kostir Ólafs Ragnars hefðu þó vegið þyngra að mati kjósenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert