Stærri gígurinn að taka yfir

Eldgosið hófst í síðasta mánuði.
Eldgosið hófst í síðasta mánuði. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Svo virðist sem virkni í minni gígnum í eldgosinu við Sundhnúkagíga sé að fjara út og stærri gígurinn að taka yfir.

Þetta er svipuð þróun og varð með syðsta gíginn sem lognaðist út af fyrir nokkrum dögum, að sögn Salóme Jórunnar Bernharðsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Virknin í gosinu er annars óbreytt að mestu leyti frá því í gær. 

Virðist ekki ógna varnargörðum

Flogið var yfir svæðið í gær og þá sást hluti hraunsins renna í austurátt en megnið fór venjulegu leiðina suður frá gígunum. Hraunið virðist ekki ógna varnargörðunum og er ekki á leiðinni að Suðurstrandavegi í bili, að sögn Salóme.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Lítil brennisteinsmengun hefur mælst í nótt en hún mældist lítillega við Nesveg í gærkvöldi. Miðað við gasdreifingarspána er líklegt að vindur snúist og gasið farið í norðurátt í dag. Gæti það farið yfir Suðurnesin annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert