Seðlabankastjóri segir Landsbankann ríkisbanka

Mikla athygli vakti þegar Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans ítrekaði í fjölmiðlum fyrr í vikunni að bankinn væri almenningshlutafélag sem „ríkið á stóran hlut í og flesta hluti í“, en skilgreiningunni varpaði hún fram eftir að fréttamaður RÚV spurði hana hvort eðlilegt væri að ríkisbanki beitti sér á markaði með þeim hætti að kaupa í heilu lagi tryggingafélagið TM af Kviku banka á tæpa 30 milljarða króna.

Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ítrekaði bankastjórinn sömuleiðis í fleiri viðtölum að ekki yrði fallið frá kaupum Landsbankans á TM þrátt fyrir að fjármálaráðherra, sem ber ábyrgð á eignarhlut ríkisins í bankanum hafi lýst andstöðu við kaupin, bæði áður en þau gengu í gegn og eins eftir.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er gestur Spursmála á mbl.is og þar er ekki úr vegi að spyrja æðsta yfirmann fjármálaeftirlits í landinu út í það hvort Landsbankinn sé í raun ríkisbanki eða ekki.

Orðaskiptin þar um fara hér á eftir en þau má einnig sjá í spilaranum hér að ofan.

  

Að vera eða ekki vera?

Nú ætla ég að fá þig til þess að útskýra eitt fyrir þjóðinni sem hvílir á henni. Er Landsbankinn ríkisbanki, ríkisfyrirtæki eða ekki?

„Landsbankinn er náttúrulega hlutafélag sem er í eigu ríkisins. Án þess að ég ætli að snerta á þessu máli sem þú ert að fiska eftir. Sérstaklega eftir að salan á Íslandsbanka hefur verið kláruð og hann er orðinn þá að fullu í einkaeign þá verður horft til þess, á Landsbankann, því hann er á samkeppnismarkaði, hvaða tengsl eru við eigandann, bæði hvað varðar hvort bankinn njóti ríkisábyrgðar, með óbeinum hætti eða hvernig það varðar, og hvort ríkið hafi afskipti af honum.“

Hann er ríkisbanki?

Seðlabankinn lítur á alla eigendur jafnt, út frá fjármálaeftirlitinu. Við álítum að ríkið vill líka arð eins og hver annar eigandi þannig að út frá fjármálaeftirliti gerum við ekki greinarmun á því hver er eigandinn. Við reynum að tryggja að allir bankarnir séu í samkeppni. Að þetta sé „fair play““.

En er Landsbankinn ríkisbanki eða ekki?

„Hann er í ríkiseigu. Það er alveg á hreinu.“

Ég held að þjóðin varpi öndinni léttar inn í páskavikuna vitandi þetta.

Landsbankinn flutti í nýjar höfuðstöðvar seint á síðasta ári. Þær …
Landsbankinn flutti í nýjar höfuðstöðvar seint á síðasta ári. Þær eru ein glæsilegustu húsakynni landsins, staðsett við hlið Marriott-Edition hótelsins og Hörpu, tónlistarhúss. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nei, nei. Síðast þegar ég vissi þá átti ríkið 98% hlut í bankanum en það er erfitt fyrir mig að tjá mig um þetta mál því þessi kaup bankans á TM munu koma til kasta fjármálaeftirlitsins.“

Ég skal hlífa þér við frekari spurningum um þetta mál enda var þetta það eina sem hvíldi á mér þessa stundina.

Viðtalið við Ásgeir má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert