Knicks í 2:0 gegn Pacers

Donte DiVincenzo og Jalen Brunson í leik næturinnar
Donte DiVincenzo og Jalen Brunson í leik næturinnar AFP/ELSA

New York Knicks unnu Indiana Pacers í öðrum leik liðanna í  úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt. Fjórtán stig í röð frá heimamönnum í Knicks sneru leiknum við í þriðja leikhluta.

Jalen Brunson, leikstjórnandi og mikilvægasti leikmaður New York liðsins, meiddist í fyrsta leikhluta og Indiana leiddi með tíu stigum þegar flautað var til hálfleiks. Eftir að hafa ekkert spilað í öðrum leikhluta sneri Brunson aftur í síðari hálfleik og Knicks saxaði á forskot gestanna.

Josh Hart og Tyrese Haliburton eigast við í nótt
Josh Hart og Tyrese Haliburton eigast við í nótt AFP/ELSA

Í stöðunni 79:70 skoruðu leikmenn Knicks fjórtán stig gegn engu frá Indiana og komust í 84:79. Josh Hart spilaði allan leikinn í öðrum leiknum í röð fyrir heimamenn sem eru án Julius Randle, Mitchell Robinson og Bojan Bogdanovic í úrslitakeppninni.

 OG Anunoby og Donte DiVincenzo skoruðu 28 stig hvor fyrir Knicks, Brunson var stigahæstur með 29 og Josh Hart skoraði 19 stig, tók 15 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.

Tyrese Haliburton átti erfitt uppdráttar í fyrsta leik liðanna en skoraði 34 stig fyrir Pacers í nótt og gaf 9 stoðsendingar. Obi Topiin skoraði 20 stig á nítján mínútum af bekknum og Pascal Siakam skoraði 14 og tók 9 fráköst, þar af fimm sóknarfráköst.

Einvígið færist nú til Indiana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert