Gæti verið fyrirboði um nýjar venjur

Ástráður Haraldsson og Vilhjálmur Birgisson fara yfir pappírana eftir útprentun …
Ástráður Haraldsson og Vilhjálmur Birgisson fara yfir pappírana eftir útprentun í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari veltir því fyrir sér hvort vinnubrögðin hjá SA og breiðfylkingunni í nýafstöðnum kjaraviðræðum gefi tóninn fyrir nýja nálgun í þeim efnum hérlendis. 

Nýr kjarasamningur til fjögurra ára var undirritaður síðdegis en þar er helsta markmiðið að ná niður verðbólgunni. 

„Þetta tiltekna tilfelli finnst mér vera dæmi um það þegar fólk nálgast samningsgerð á skynsamlegan og jákvæðan hátt. Stéttarfélögin mættu hér til leiks með mjög mótaða og skynsamlega fram setta kröfugerð. Aðilarnir voru strax frá fyrsta degi ákveðnir í því hver samningsmarkmiðin væru þótt þeir hefðu mismundandi sýn hvernig ætti að ná þeim,“ segir Ástráður og telur vinnubrögðin vita á gott.

„Mér er nær að halda að þetta geti verið fyrirboði um að við náum að þroska nýjar venjur við kjarasamningsgerð og ýmislegt fleira bendir til þess að við séum að færast í þá átt. Ég vona bara að það haldi áfram.“

Samningurinn væntanlega fordæmisgefandi

Telur Ástráður að samningarnir sem undirritaðir voru í dag séu fordæmisgefandi fyrir aðra sem eiga eftir að semja? 

„Mér finnst nú allt benda til þess. Þetta er mjög stór hópur fólks af almenna vinnumarkaðnum og með þessu hafa Samtök atvinnulífsins fyrir sitt leyti einnig mótað stefnuna. Ég geri ekki ráð fyrir því að þau hafi áhuga á að semja á allt annan veg við aðra viðsemjendur sína. Svo eru það ekki ný tíðindi að opinberi vinnumarkaður semji á svipuðum nótum og almenni vinnumarkaðurinn,“ segir Ástráður og þótt fleiri samningalotur eigi eftir að fara fram hjá embættinu þá er ljóst að mikið er búið þegar fjölmenn stéttarfélög eins og Starfsgreinasambandið og Efling hafa náð samningum. 

„Ég er mjög feginn og ánægður enda hefur þetta verið löng törn eða síðan um áramót. Það hefur gengið á ýmsu en mestan part hefur þetta gengið mjög vel. Ég er ánægður með niðurstöðuna,“ segir Ástráður Haraldsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert