Höfum alltaf trú á því sem við erum að gera

Ísold með boltann í dag.
Ísold með boltann í dag. mbl.is/Eyþór

„Mér líður ótrúlega vel. Þetta var frábær frammistaða hjá liðinu og við stigum upp þegar við þurftum á því að halda,“ sagði Ísold Sævarsdóttir 17 ára fyrirliði Stjörnunnar eftir sigur á Keflavík, 86:79, í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta. 

Keflavík hefur verið besta lið tímabilsins til þessa enda ríkjandi bikar- og deildarmeistari. Þrátt fyrir það hefur Stjarnan unnið tvo leiki í einvíginu, þar sem úrslitin ráðast í oddaleik á mánudag.

„Við erum að spila okkar leik og það er að virka rosalega vel núna. Við höfum líka farið mjög vel yfir þær og erum að gera okkar besta. Það er nóg,“ sagði hún.

Stjarnan var yfir langstærstan hluta leiks, en Keflavík aldrei langt undan. Í hvert skipti sem Stjarnan náði smá forskoti, svaraði Keflavík jafnóðum. „Körfubolti er þannig íþrótt að bæði lið koma með áhlaup og við þurfum að halda haus. Við megum ekki hætta ef Keflavík skorar nokkur stig í röð.“

Keflavík hefur ekki tapað leik á heimavelli á tímabilinu og þarf Stjarnan að vera fyrst liða til þess að ná í útisigur þar í bæ, ætli liðið sér alla leið í úrslitaeinvígið.

„Við munum undirbúa okkur vel og mæta tilbúnar og vera á fullu frá upphafi til enda. Við höfum alltaf trú á því sem við erum að gera,“ sagði Ísold.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert