Búast má við fleiri og sterkari hrinum

Eftir því sem hlýnar má búast við fleiri og sterkari …
Eftir því sem hlýnar má búast við fleiri og sterkari hrinum. mbl.is/Sigurður Bogi

Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga hjá Veðurstofu Íslands, segir mikla virkni við Kötlu tengjast jarðhitavirkni. Það sé vel þekkt að Katla „taki kippi“ en menn séu þó alltaf á tánum.

„Mjög mikið af þessari virkni tengist jarðhitavirkni, það virðist vera það, við sjáum oft jarðhitavatn koma niður í til dæmis Múlakvísl í kjölfarið á svona hrinum,“ segir Benedikt í samtali við mbl.is.

Jarðskjálfti af stærðinni 3,1 varð í Mýrdalsjökli rétt fyrir klukkan 23 í gærkvöldi, en fyrir helgi hófst skjálftahrina á svæðinu. Undir Mýrdalsjökli er eldstöðin Katla, sem er ein stærsta og virkasta megineldstöð landsins.

Frekari virkni í sumar

„Katla er ansi virk núna. Við höfum alveg séð þetta áður, hún tekur svona kippi. Þetta er ekkert nýtt en menn eru náttúrulega alltaf á tánum gagnvart Kötlu. Hún gaus fyrir meira en hundrað árum og hún hefur verið að gjósa á fimmtíu til hundrað ára fresti.“

Hann segir að búast megi við frekari virkni í sumar.

„Miðað við hvernig hún er búin að vera núna í vor þá er þetta svona forboði um að það verði ansi líflegt þar í sumar. Eftir því sem hlýnar má búast við fleiri og sterkari hrinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert