Gefur ekki upp afstöðu til virkjana á Vestfjörðum

Halla Hrund Logadóttir, forsetaframbjóðandi, gefur ekki upp afstöðu sína til mögulegra virkjanaframkvæmda á Vestfjörðum. Hún segir að horfa verði á orkuöflun í ljósi „ólíkra samfélaga“.

Þetta kemur fram í viðtali við hana á vettvangi Spursmála sem vakið hefur mikla athygli.

Halla Hrund hefur frá árinu 2021 gegnt embætti orkumálastjóra en á þeim tíma hefur stofnunin m.a. verið gagnrýnd fyrir að draga lappirnar í leyfisveitingum til nýrra virkjana og borframkvæmda til leitar á heitu og köldu vatni í landinu.

Orðaskiptin um virkjanamálin má sjá í spilaranum hér að ofan. Þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan.

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi svarar spurningum þáttarstjórnanda.
Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi svarar spurningum þáttarstjórnanda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Talar sem orkumálastjóri

Ertu fylgjandi þessum virkjanaframkvæmdum, eins og Hvammsvirkjum, Hvalárvirkjun fyrir vestan, mögulegum vatnsbúskap í tengslum við Vatnsfjörð á sunnanverðum Vestfjörðum. Hvernig líst þér á þessar framkvæmdir?

„Embættismenn, og nú tala ég sem orkumálastjóri í leyfi...“

Þú ert að bjóða þig fram til forseta.

„Embættismenn hafa ekki skoðun á einstaka framkvæmdum.“

En þú ert að bjóða þig fram til forseta.

Mun sem forseti ekki beita sér

„Og í hlutverki forseta mun ég ekki ráðskast til um einstaka virkjanaframkvæmdir.“

Nei, en hafa Vestfirðingar til dæmis ekki rétt á að vita afstöðu þína til þess hvort þar eigi að virkja eða ekki?

„Mín afstaða er sú að í málum sem snúa að innviðauppbyggingu eigi að líta á nýtingu orkuauðlinda í samhengi við samfélög. Það hefur kannski, ef maður lítur á söguna okkar, þá var það akkúrat sagan. Við vorum að byggja upp...“

Við eigum að skoða þetta í samhengi við það, það er alveg rétt, en spurningin er hvort þú sért fylgjandi því að Vestfirðingar fái að nýta þessi fallvötn til orkuframleiðslu á sínu heimasvæði.

Innviðirnir ekki nægilega sterkir

„Ég ætla ekki að tjá mig um einstaka virkjanakosti. En ég ætla að segja það að mér finnst vanta inn í umræðuna um orkumálin, og eitthvað sem ætti að leggja áherslu á, hvort sem það er verið að tala um styrkingu flutningskerfa eða orkuframkvæmdir að við eigum að setja í forgang þau verkefni sem styðja við ólík samfélög. Og ég nefni Vestfirði og Vestmannaeyjar af því að það eru augljós dæmi þar sem innviðir eru ekki nægilega sterkir, styðja ekki við samfélagið...“

Þá verða Vestfirðingar að fá svör um það hvort þeir megi bora og...

„Það er þá. Þetta er svo frábært, Stefán, því að hvað snýst það þá um. Það snýst um að ef við viljum flýta málum þá þarf kannski að styðja við stjórnsýslu í slíkum málum og það þarf kannski að skoða hvernig hægt er að stytta ferla.“

Viðtalið við Höllu Hrund má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert