„Kemur smá hnútur í magann“

„Alltaf þegar Katla fer að bæra á sér þá kemur …
„Alltaf þegar Katla fer að bæra á sér þá kemur smá hnútur í magann. Svo hittir maður vísindafólkið og fer yfir hlutina, þá róast maður,“ segir Víðir. Samsett mynd

Vissulega yrði óheppilegt ef Kötlugos myndi hefjast rétt á meðan bróðurpartur lögregluþjóna landsins og almannavarna er upptekinn við að sinna stífri löggæslu í kringum leiðtogafund Evrópuráðsins, dagana 16. og 17. maí.

Þó fundurinn sé „gríðarstór“ viðburður má hann ekki draga úr öryggi almennings á meðan og hafa því ráðstafanir verið gerðar, að sögn Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns í almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. 

„Þetta er grunnatriði í okkar lagalegum skyldum,“ segir Víðir og tekur fram að leiðtogafundurinn muni ekki bitna á viðbragði almannavarna komi til náttúruhamfara.

Smá hnútur í magann

Jarðskjálftahrina hófst í gærmorgun í Mýrdalsjökli og er hún sú stærsta frá árinu 2016. Þrír stærstu skjálf­arn­ir voru 4,8, 4,7 og 4,5 að stærð. Engin merki um gosóróa eða hlaupaóróa hafa þó komið fram.

„Alltaf þegar Katla fer að bæra á sér þá kemur smá hnútur í magann. Svo hittir maður vísindafólkið og fer yfir hlutina, þá róast maður,“ segir Víðir.

Annað rými fer undir almannavarnastjórnstöð

Um 40 þjóðarleiðtogar hafa boðað komu sína á leiðtogafund Evrópuráðsins í Hörpu sem verður haldinn síðar í mánuðinum. Eins og fram hefur komið verður stíf og mikil öryggisgæsla í miðborg Reykjavíkur og víðar þessa daga, og hefur m.a. verið kallaður til erlendur liðsauki. Þá verða lögreglumenn víðs vegar af landinu fengnir til að aðstoða.

„Það rými sem venjulega er fyrir samhæfingarstöðina verður nýtt fyrir verkefni í kringum leiðtogafundinn. En við erum með annað rými í húsinu sem við notum fyrir stjórnstöð almannavarna á meðan það er. Svo erum við með viðbótarrými ef við þurfum að nota þrjár stöðvar á sama tíma. Þannig að við erum búin að undirbúa okkur nokkuð vel ef eitthvað allt annað gerist ótengt fundinum og við þurfum að takast á við það á sama tíma og fundurinn er í gangi,“ segir Víðir.

„Hluti af okkar mannskap hefur bara það verkefni að vera til taks fyrir samhæfingarstöðina og er ekki með verkefni tengd leiðtogafundinum. En við treystum mjög á Rauða krossinn, björgunarsveitir, Landhelgisgæsluna, slökkviliðið og fleiri að skaffa okkur auka mannskap ef þarf, sem er ekki þá í verkefnum tengdum leiðtogafundinum. Við erum að þessu leytinu til mjög undirbúin.“

Stöður tvímannaðar

Er eitthvað í tengslum við leiðtogafundinn sem gæti komið niður á viðbragði?

„Nei, við höfum verið að horfa á það í öllu ferlinu að það sé ekki þannig, að við séum með viðbragð á öllu landinu til að takast á við óvænta atburði. Það er hluti af því að við erum ekki búin að færa alla lögreglumenn hingað.

Það er alveg nægjanlegur viðbúnaður í hverju lögregluumdæmi fyrir sig. Sama verður með slökkvilið og sjúkrabílaþjónustu. Þau eru með aukafólk á vakt sem er sérstaklega kallað til út af fundinum. Það eru allir að tvímanna sínar stöður þessa daga til þess að geta sinnt þessu. Við vitum að lífið heldur áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert