„Fylgir því að búa í svona landi“

Hekla, drottning íslenskra eldfjalla, er ein þeirra eldstöðva sem getur …
Hekla, drottning íslenskra eldfjalla, er ein þeirra eldstöðva sem getur gosið hvenær sem er. Ljósmynd/Heklusetrið

„Þetta var svolítið viðburðaríkur dagur í gær þegar hrinur gengu yfir undan Reykjanestá og í Kötluöskjunni,“ segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus, í samtali við mbl.is um undangengnar jarðhræringar.

Segir hann téð svæði bæði undir smásjá þessa dagana. „Þetta er framhald atburðarásar sem staðið hefur lengi á báðum þessum stöðum, sérstaklega í Kötlu sem hefur sýnt lífsmörk alveg síðan mælingar hófust eiginlega,“ heldur Páll áfram.

Páll Einarsson.
Páll Einarsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Óvenjulegt ástand um þessar mundir

Vill hann þó forðast í lengstu lög það orðalag að Katla sé komin á tíma eins og stundum hefur verið haft á orði, „þessar eldstöðvar hafa ekki hugmynd um tíma, þær haga sér allar mjög óreglulega. Þess vegna leggjum við áherslu á að fylgjast með og gera mælingar, finna út hvert ástand eldstöðvanna er,“ segir Páll.

Aðspurður kveður hann ástandið um þessar mundir óvenjulegt að því leyti að nú séu margar eldstöðvar komnar á það stig að geta gosið hvenær sem er.

„Þar eru fremstar í flokki Grímsvötn, Bárðarbunga og Hekla en Katla hefur sýnt það mikil lífsmörk í langan tíma að það er ekki ólíklegt að hún verði að teljast í þessum hópi líka,“ segir Páll og bendir á að nú hafi Reykjanesskagi einnig bæst í hópinn nýlega.

„Þetta eru allt saman eldstöðvar sem þarf að fylgjast með og í hvert sinn sem kemur skjálftahrina af þessu tagi, margir litlir skjálftar á stuttum tíma, þá er best að hafa augun hjá sér. Þetta fylgir því að búa í svona landi, að fylgjast vel með og láta ekki hlutina koma aftan að sér alltaf,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka